Kristján útskrifaðist úr grunnskóla í vor en byrjar ekki í framhaldsskóla í haust eins og jafnaldrar hans.
Vísir fjallaði um mál Kristjáns í gær. Móðir hans, Marina Lazareva, sagði að honum hafi verið synjað um pláss í tveimur skólum sem hefðu hentað honum, en Kristján er einhverfur, með þroskahömlun og mállaus. Hún sagði að mál Kristjáns sé búið að flakka á milli fólks í kerfinu en engin almennileg svör hafi borist.
Marina lýsti einnig slæmum samskiptum við Þórdísi Jónu Sigurðardóttur, forstjóra Menntamálastofnunar.
„Þessi kona var ofboðslega pirruð og svaraði mér dónalega. Eins og hún sagði „Það er búið að bjóða ykkur margt, hvað viljið þið meira?“ Á maður að eiga von á svona svari eða talar hún svona við mig af því ég er útlensk? Svo spurði hún mig hvort ég væri með einhverja manneskju sem talað íslensku betur. Fyrirgefðu, ég skil fullkomlega hvað hún segir og hvað hún meinar,“ sagði Marina við Vísi.
Vítalía gagnrýnir framkomu Þórdísar og segir það sé ekkert nýtt fyrir hana að verða vitni að fordómum í garð foreldra sinna.
„[Móðir mín á ekki að þurfa að] tækla krefjandi aðstæður í lífi sínu með því að síendurtekið sé verið að reyna að lítillækka hana með því að kommenta á íslenskuna hennar. Ég hef alist upp við þessa fordóma í garð foreldra minna síðan ég man eftir mér,“ segir Vítalía í færslu á Instagram.
„Litli bróðir minn er hetjan mín og hann er sá sem gaf mér ný gildi í lífinu. Að alast upp með einstakling sem er fatlaður eru mín forréttindi.“