Hlýtur það að vera töluverð breyting fyrir óbreytta leikkonu, þó svo farsæl hafi verið í starfi, að fara frá Hollywood yfir í að vera meðlimur í konungsfjölskyldu. Slíkt er samt ekki einsdæmi og munum við flest eftir Grace nokkurri Kelly, en heldur hefur meira verið fjallað um hertogaynjuna Meghan Markle sem fór úr því að leika laganema í þáttunum Suits yfir í að gegna konunglegum skyldum við bresku hirðina eftir að hún gekk að eiga Harry Bretaprins.
Segja má að hún hafi hreinlega ákveðið að byrja alveg upp á nýtt þegar hún tók að sér þetta nýja hlutverk og þegar hún færði sig frá Hollywood til London ákvað hún að segja skilið við allt, þar með talið fjölskyldu sína og vini. Reyndar hóf hún svo nýtt ferðalag skömmu síðar og flutti aftur til Bandaríkjanna, en það er önnur saga sem flestum ætti að vera kunnug.
En hvers vegna gaf hún skít í gömlu vinina? Breska götublaðið Mirror telur sig hafa svarið eftir að hafa ráðgað sig við sérfræðing í samböndum. Þessi sérfræðingur, Kate Mansfield, segir að skýringin sé í raun sáraeinföld – Meghan hafi hreinlega ekki lengur átt samleið með gamla lífi sínu, enda hafi gildismat hennar og markmið tekið stakkaskiptum. Slíkt sé alls ekki óalgengt.
„Fólk sem leggur áherslu á vöxt og þroska fjarlægist gjarnan vini og tengingar sem það hefur gert í gegnum árin, þar sem það í raun breytist með slíkum hætti að það á hreinlega ekki lengur samleið með gömlum félögum. Þetta getur verið sökum þess að gildismat er ekki lengur sambærilegt sem og lífsstíll og áhugamál. Allt þetta á vel við þetta persónulega ferðalag Meghan þegar hún gekk inn í konungsfjölskyldu.“
Meðal þeirra vina sem fengu að fjúka er knattspyrnumaðurinn David Beckham og eiginkona hans, hönnuðurinn Victoria Beckham. Vinkona Meghan til fjölda ára, Jessica Mulroney var einnig sett út í frostið sem og æskuvinkonan Ninaki Priddy, svo dæmi séu tekin. Munu vinslitin eiga rætur til þess að Meghan taldi þessa fyrrum félaga hafa lekið fréttum í fjölmiðla í hennar óþökk.
Þar hafið þið það og getið nú sofið rótt í nótt.