fbpx
Laugardagur 23.nóvember 2024
Eyjan

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Brottfararbúðir eða brottfararpremía

Eyjan
Sunnudaginn 20. ágúst 2023 21:07

Ole Anton Bieltvedt

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fyrr á árinu setti ríkisstjórnin, meirihluti Sjálfstæðismanna, Framsóknarmanna og Vinstri grænna, ný lög um útlendingamál á Alþingi. Voru þau undan rifjum sjálfstæðismannsins Jóns Gunnarssonar, þá dómsmálaráðherra, runnin, en ráðherrar Vinstri grænna, líka auðvitað Guðmundur Ingi, félagsmálaráðherra, og Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, gerðu lagasetninguna kleifa. Studdu hana.

Á síðustu vikum fór svo að reyna á þessi nýju lög í framkvæmd. Veldur það mikilli undrun, hversu ófullkomin þessi lagagerð er, og, hversu lítt hugsuð, ómannúðleg og harðneskjuleg hún reynist í framkvæmd.

Hér er auðvitað verið að fjalla um fólk, sem flest hvert hefur gengið í gegnum miklar þjáningar og raunir, verið misvirt og misnotað mest alla sína ævi, og hrökklast hefur hingað með einhverjum hætti í von um náð, miskunn og betra líf.

Eins og menn hafa heyrt og séð í fréttum, þá fá þeir flóttamenn, sem synjað hefur verið um landvist, 30 daga til að fara úr landi. Þessa 30 daga fá þeir aðgang að húsaskjóli og daglegum grunnþörfum, en eftir það er þeim hreinlega hent á götuna.

Atvinnuleyfi hafa þeir auðvitað ekki. Fjölskyldur, vini eða vandamenn, eiga þeir heldur ekki. Þessir aumingjar standa því uppi gjörsamlega úrræða- og bjargarlausir. Sjálfsvíg hlýtur að vera þeim ofarlega í huga. Endanlegur flótti úr þessu landi, frá þessu fólki, úr þessu lífi. Hér er sómi Íslendinga kominn niður í svaðið, eða neðar.

Guðrún Hafsteinsdóttir, nýr dómsmálaráðherra svarar bara, „já, þetta eru lög landsins, svona eru íslenzk lög“, eins og þessi lagasetning hafa einhvern veginn hrokkið inn í samfélagið, af himnum ofan eða annars staðar að, kannske þá meira neðan frá, og, eins og hana, Sjálfstæðisflokkinn og ríkisstjórnina varði ekkert um tilkomuna. Aðrar eins úrtölur.

Vinstri grænir, og þá einkum Guðmundur Ingi, bregður fyrir sig undarlegum fæti, og fullyrðir einfaldlega, að sveitarfélögunum beri að taka við þessu fólki, sem hefur fengið synjun um landvist, sinna því og sjá um það með húsnæði og annað viðurværi.

Ekki er til þess vitað, að hann eða ríkisstjórn hafi stillt slík mál af við sveitarfélögin við eða fyrir lagasetningu, enda neita þau allri aðild og ábyrgð. Guðmundur Ingi rembist þó við, eins og rjúpan við staurinn, og á meðan svelta og þjást tugir ólánsmanna í gjótum eða á götunni. Annað eins framferði.

Dómsmálaráðherra og svo forsætisráðherra tala nú um brottfararbúðir. Hér er væntanlega um búðir að ræða, þar sem þeir, sem hafa fengið synjun um landvist og vilja eða geta ekki farið, eru haldnir, meira eða minna eins og fangar, þar til þeir kannske gefa sig og láta flytja sig af landi brott, ef það gengur þá, eða ævidagar enda.

Reyndar hefði mátt hugsa fyrir einhverju slíku úrræði við lagagerðina, þannig, að lögin hefðu ekki bara haft upphaf og gildissvið, heldur líka endi, en til þess skorti annað hvort nægilega hugsun, skilning eða vilja, nema allt hafi verið.

Vendum kvæði okkar í kross:

Í maí 2020 skipuðu félags- og barnamálaráðherra og dómsmálaráðherra stýrihóp um málefni fanga. Vann hópurinn að úttekt á fanga- og fangelsismálum fram til apríl 2021. Eitt af því, sem fram kom, var að kostnaður við hvern fanga væri 17,6 til 21,5 milljón króna á ári, á verðlagi 2020.

Ef reiknað er með, að þessi kostnaður hafi hækkað um 20% síðan, erum við að tala um 20,6 til 25,8 milljónir króna á ári fyrir hvern og einn fanga. Nær 2 milljónir króna á mánuði, fyrir hvern og einn fanga, á verðlagi dagsins í dag. 

Skyldu útgjaldamál og kostnaður ríkisins lítið eiga upp á pallborðið hjá þessum ráðherrum, svo að ekki sé talað um skapandi hugsun eða mannúðlegar og hagkvæmar lausnir!?

Hugsun undirritaðs er þessi:

Það flóttafólk, sem fær synjun um landvist hér skv. íslenzkum lögum, hversu vönduð, gæfuleg eða ógæfuleg, sem þau kunna að vera – þau verða að gilda þar til önnur lög, til leiðréttingar eða breytingar, eftir þeim sjónarmiðum, sem gilda á Alþingi, eru sett – verður auðvitað að una því og yfirgefa landið.

Spurning verður þá, á hvaða forsendum. Á það að duga, að kaupa flugmiða og henda fólki inn í flugvél, þar sem sama úrræðaleysi og kvalræði, eða verra, mun taka við á komustað, eða, á, að fara hér fram með skynsemi og manngæzku!?

Hvernig væri, að bjóða flóttamönnum, sem hefur verið synjuð landsvist, að a) hjálpa þeim við að fá persónuskilríki eða vegabréf b) kaupa fyrir þau farmiða á þann stað, sem þau vilja fara á c) rétta að þeim brottararpremíu upp á 10.000 Evrur (1,5 milljónir króna)!?

Þessi brottararpremía, sem að fjárhæð til myndi ekki tilsvara nema 3ja vikna kostnaði við hald í brottfararbúðum, gæti skapað viðkomandi tækifæri til að koma sér fyrir á nýjum stað; byggja upp nýtt og betra líf þar. Einkum víða í Afríku, en líka í Asíu og Suður Ameríku, væri þetta verulegt fé, sem gæti tryggt fólki nýtt tækifæri, möguleikann á nýju og betra lífi þar!? Þetta væri það, sem kallað er á ensku „Win-Win“ lausn.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Sigmundur Davíð um slaufun Þórðar Snæs – „Þeir sem eru fyrstir til að kasta steinunum það eru yfirleitt ekki þeir syndlausu“

Sigmundur Davíð um slaufun Þórðar Snæs – „Þeir sem eru fyrstir til að kasta steinunum það eru yfirleitt ekki þeir syndlausu“
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Össur segir Þorgerði farna að hallast til hægri – „Hún smó undan sem fugl á flugi“

Össur segir Þorgerði farna að hallast til hægri – „Hún smó undan sem fugl á flugi“
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 dögum

Ágúst Borgþór skrifar: Er hægt að létta þessari martröð af þjóðinni?

Ágúst Borgþór skrifar: Er hægt að létta þessari martröð af þjóðinni?
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Þetta myndi Arnar Þór gera ef hann væri Donald Trump

Þetta myndi Arnar Þór gera ef hann væri Donald Trump