Fyrsta tilraun Rússa í áratugi til þess að senda geimfar til tunglsins endaði illa þegar eldflaugin Luna 25 brotlenti á hrjóstrugum hnettinum.
Um er að ræða áfall fyrir geimferðaáætlun Rússa en um miðjan dag í gær var greint frá tæknivandamálum þegar eldflaugin að búa sig undir lendingu á tunglinu og síðar var greint frá því að sambandið við stjórnstöðina á jörðu niðri hefði rofnað.
Sérfræðingar Rússa hjá geimferðastofnuninni Roscosmos reyndu í örvæntingu að lagfæra vandamálið en í tilkynningu á Telegram kemur fram að þær tilraunir hafi verið árangurslausar.
Luna átti að vera fyrsta tilraun Rússa til að lenda á tunglinu í 47 ár. Síðast var það rússneska geimflaugin Luna 24 sem lenti farsællega á tunglinu þann 18. ágúst 1976.
Geimflauginni var skotaði á loft þann 10. ágúst síðastliðinn og hélt á ógnarhraða til tunglsins og tók meðal annars fram úr indverska geimfarinu Chandrayaan-3 á leið sinni en þeirri flaug var skotið í loftið þann 14. júlí síðastliðinn.
Spurning er hvort að kapp sé best með forsjá en ráðgert er að indverska eldflaugin lendi á tunglinu þann 23. ágúst næstkomandi.