Halldóra Sigurðardóttir klæðist mörgum höttum í lífinu en hún er fjölmiðlafræðingur, rithöfundur og þýðandi. Hún þýddi meðal annars sjálft Leyndarmálið (The Secret) yfir á íslensku og fyrir þremur árum gaf hún út sína eigin bók sem nefnist Dauði Egósins. Hún er nýjasti gestur Mumma Týs Þórarinssonar í Kalda pottinum frá sviðinu í Gömlu Borg. Í þættinum ræðir Halldóra um bók sína og ýmis atvik úr lífi hennar, meðal annars um erfiða reynslu þar sem hún var fjarlægð af heimili sínu af lögreglu og nauðungarvistuð á geðdeild.
„Ég gef óttanum nafn og allri þessari leiðinlegu orku nafn sem allir þekkja – en mjög hættulegt er að nefna. Og það er Satan. Það gerðust mjög slæmir atburðir fyrir mig…“
Halldóra útskýrir að það hafi verið örlagaríkt þegar hún notaði orðið Satan í setningu fyrir ekki svo löngu síðan, en á síðasta ári hafði hún sagt Satani að víkja burt í návist ættingja, svo aftur í viðvist lögreglu, og í kjölfarið endaði hún á geðdeild – svipt sjálfræði.
Halldóra segist nota þennan frasa þegar hún upplifir neikvæða orku í kringum sig, þarna sé hún að reyna að vísa neikvæðninni burt.
„Fyrst langar mig að segja, ég ætla að vera stuttorð, ég var sem sagt að vinna í fangelsinu á Eyrarbakka og það gekk bara mjög vel og ég var að ganga með Guði í mínu starfi og ég snobba hvorki upp á við né niður á við og er góð við alla. Ég leit á starfsmenn sem vini mína og á fangana sem gesti á þessum stað. En allavega það gerist eitthvað. Ég veit ekki hvað kemur fyrir en það líður yfir mig í vinnunni, og ég fæ að fara heim.“
Hún fer heim og skömmu síðar banka lögreglumenn uppá hjá henni og vilja fá að taka af henni skýrslu. Halldóra taldi ljóst að lögreglan væri að fara mannavillt og afþakkaði boð um skýrslutöku og vísaði þeim burt. Skömmu síðar á það sér stað að hún missir úr dag. Hún er ekki viss hvers vegna, en það hafi nú komið fyrir marga að ruglast á því hvaða dagur vikunnar er. Hún hafði misst af afmæli sem hún átti að mæta í og varð það til þess að ættingi kom til hennar til að sjá hvort ekki væri í lagi.
Fannst henni samtalið heldur neikvætt og reyndi að vísa neikvæðninni burt með því að segja – Vík burt Satan.
Í kjölfarið kom hópur lögregluþjóna á heimilið hennar og meinuðu þeir henni að yfirgefa húsið en neituðu þó að upplýsa Halldóru um hvað hún hefði gert til að verðskulda þessi afskipti. Lögreglan hafi ruðst inn óboðinn og neitað að yfirgefa húsnæðið og fór það á endanum svo að Halldóra var borin út í lögreglubíl, nokkuð sem hún segir gífurlega niðurlægjandi og furðar hún sig á því að ef talið var að heilsa hennar, líkamleg eða andleg, væri í ólagi – hvers vega enginn læknir hafi mætt á svæðið til að staðfesta slíkan grun.
Henni var svo ekið upp á Landspítala og þar var henni greint frá því að hún yrði nauðungarvistuð og var sprautuð með fjórum sprautum án þess að fá útskýringu á því hvaða lyf væri um að ræða og hvers vegna þyrfti að gefa henni þau.
Henni var sagt að hún væri að sýna geðrofseinkenni og skipti engu þó hún útskýrði að hún væri við fína heilsu. Hún hafi þar að auki haldið ró sinni enda róleg og kurteis að eðlisfari og hafði þar að auki ekkert unnið sér til sakar.
„Ég fæ aldrei neinar útskýringar, hvað var verið að gera, hvers vegna var verið að gefa mér þessar sprautur og hvað kom fyrir og allt þetta.“
Fór það svo að hún var svipt sjálfræði í þrjá mánuði, en þegar aðeins var liðinn mánuður af þessum tíma leyfði læknir henni að fara aftur heim. Málið hafði þó gífurlegar afleiðingar á líf hennar. Hún hafði misst vinnuna hjá fangelsinu, enda tæknilega verið handtekin, og heimilið – hennar griðastaður – var nú minning um hennar verstu stund.
„Þarna er ég bara komin heim og líf mitt er bara brunarústir.“
Hún ákvað því að selja húsið sitt, skelti sér í langt frí til útlanda og hefur svo síðan unnið að því að púsla lífinu saman aftur. Hún segir að tilhugsunin um að það sé hægt að svipta manneskju sjálfræðinu, fjarlægja hana nauðuga af heimili sínu og svipta frelsinu án nokkur tilefnis – sé skuggaleg.
Nánar má heyra um reynslu Halldóru í nýjasta þætti Kalda pottsins sem er hægt að nálgast á tyr.is eða á Spotify.
Kaldi Potturinn er spjallþáttur þar sem Mummi fær til sín á sviðið heima alls konar fólk úr öllum kimum samfélagsins, með fjölbreytta lífsreynslu, djúpa sýn á tilveruna og sterkar skoðanir á lífinu. Fólk sem fer sínar eigin leiðir. Mummi hefur sjálfur sterkar skoðanir og er óhræddur við að tjá sig um hvað sem er, svo allt fær að flakka á sviðinu. Kaldi Potturinn hefur ekkert að fela.
Dagskrárgerð Kalda pottsins er í höndum Mumma og stjórn upptöku er í höndum Gunnars Bjarna en upptökur fara fram á heimili Mumma og eiginkonu hans, Þórunnar Wolfram, á Gömlu Borg í Grímsnesi.