Mjög furðulegt atferli pars sem athafnaði sig við íbúðarhús í Gljúfraseli og Hálsaseli í fyrrinótt náðist á eftirlitsmyndavélar heima hjá Árnýju Benediktsdóttur, íbúa í Gljúfraseli. Á myndböndum sést fólkið kíkja ofan í blómapotta, líkt og það sé að leita að húslyklum, en parið fjarlægir síðan töluvert af blómum sem prýddu umhverfið við framhlið hússins.
Árný birti tvær upptökur úr eftirlitsmyndavélum í íbúahópi í Facebook. Komið hefur í ljós að fólkið fór í ránsferð í kringum fleiri hús í hverfinu, stal meðal annars blómum og blómapottum við hús í Hálsaseli. Kona sem varð vitni að atferli þeirra hringdi í lögreglu um klukkan hálffjögur í fyrrinótt, lögregla kom hálftíma síðar en þá var fólkið á bak og burt.
„Það er stór garður baka til hjá mér en þau fóru ekki þangað, þetta var allt að framanverðu,“ segir Árný. „Það sem ég sé á upptökunni er að þau byrja á að leita að lykli undir potti. Ég er með tvær mjög stórar hortensíur fyrir framan dyrnar og það fyrsta sem ég sá þegar ég opna dyrnar var að það var allt út í mold í kringum þær. Það var búið að slíta einhver blóm af annarri hortensíunni, en síðan fara þau í þennan bolla þar sem er stórt blómaker og rífa allt upp með rótum sem í þeim potti er. Það voru fyrst og fremst stór og falleg flauelsblóm. Síðan kemur hann þarna aftur og tekur körfu sem er við innganginn og lyftir upp úr henni blómi. Ég hélt að þar væri hann líka að leita að lykli. Síðan tekur hann bara körfuna og silkiblómið, hann kom aftur til að taka þetta, ég var með fleiri silkiblóm í pottum og þau voru tekin. Þau tóku með sér það sem hægt var að taka með sér, annað var of þungt.“
Myndbandið sýnir fremur ungt fólk en þó alls enga unglinga. Konan virðist geta verið á aldrinum 25-35 ára. Maðurinn er með hjálm og því er andlit hans ekki þekkjanlegt. Fólk virðist vel á sig komið og er vel klætt. Lesendur DV sem séð hafa myndböndin hafa borið kennsl á parið af þeim. Samkvæmt heimildum DV mun hefur konan verið í neyslu og er parið er íslenskt, en tal parsins sem greina má í öðru myndbandinu í Facebook-hópnum er frekar ógreinilegt.
„Þetta eru tvö myndbönd sem ég birti úr öryggismyndavélunum og á öðru þeirra sést skýrt að maðurinn er með úttroðinn poka af þýfi,“ segir Árný ennfremur.
Árný segir ljóst að parið hafi ekki verið að fremja skemmdarverk heldur hafi þetta verið ránsferð. Hins vegar finnst henni blóm af þessu tagi vera furðulegur ránsfengur. „Ég hringdi í lögregluna í gærmorgun. Auðvitað finnst manni þetta ekki vera stórvægilegt og lögreglumaðurinn sem svaraði hló og sagði, „bíddu, er fólk farið að stela blómum?“ Lögreglumaðurinn hvatti Árnýju hins vegar til að koma niður á lögreglustöð og sýna lögreglu myndböndin, sem hún og gerði.
„Þau tóku mér mjög vel niðri á stöð, ég hélt að lögreglan hefði svo mikið að gera. Þau skoðuðu þetta nákvæmlega og ætla að hafa samband ef það koma upp fleiri svona brot,“ segir Árný.
Aðspurð segir hún að þetta hafi vissulega verið óþægileg lífsreynsla:
„Þetta er svolítið skrýtið þegar maður hefur átt heima í sama húsinu í 35 ár. Auðvitað fær maður ónotakennd og mér varð illa brugðið, sérstaklega af því þau virtust vera að leita að lyklum. En þetta er mjög skrýtið, ég get ekki ímyndað mér að fólk fari um hverfi og steli silkiblómum.“ Telur Árný að fólki hafi fyrst og fremst verið að freista þess að komast yfir lykla, fara síðan inn í hús og ef til vill stela bíllyklum. „Við erum með tvo stóra bíla hérna fyrir utan. Maður er svona að láta hugann reika um hvað þau höfðu í hyggju, eftir að hafa skoðað þetta.“
Lesendur DV sem séð hafa myndböndin hafa borið kennsl á fólkið og samkvæmt upplýsingum DV hefur þeim upplýsingum verið komið áfram til lögreglunnar. Mun parið búa í miðbænum og sá vegfarandi til þeirra í gær með töluvert af farangri, meðal annars þrjú rafhlaupahjól.
Fólkið virðist hafa verið í viðamiklum þjófnaðarleiðangri undanfarna daga.