Séra Kristinn Jens Sigurþórsson, fyrrum sóknarprestur í Saurbæjarprestakalli í Vesturlandsprófastsembætti, fer hörðum orðum um Agnesi Sigurðardóttur, biskup Íslands, í aðsendri grein í Morgunblaði dagsins. Þar segir hann að framganga Agnesar varðandi framlengingu á starfstíma hennar í biskupsstóli sé siðlaus og hann hafi velt því fyrir sér hvort kirkjan væri „að breytast í „költ“, þ.e.a.s. breytast í trúarklíku“ undir hennar stjórn.
„Þegar leitað er skilgreininga á því hvað „költ“ er koma fram þau einkenni klíkunnar að leiðtoginn er jafnan sjálfskipaður og sagður búa yfir „karisma“ – þ.e. persónutöfrum. Blasir við að þjóðkirkjan lýtur nú sjálfskipaðri forystu Agnesar M. Sigurðardóttur og að því leyti er eitt helsta skilyrðið um trúarklíku uppfyllt. Öllu örðugra er að skynja að leiðtoginn búi yfir nokkru sem kalla mætti „karisma“. Þó er til þess að horfa að í nútímanum er nóg að vera kona til að hafa „karisma“. Er í þessu sambandi vert að rifja upp að Agnes M. Sigurðardóttir var einmitt kosin til að gegna embætti biskups Íslands af þeirri ástæðu einni að hún var og er kona,“ skrifar Kristinn Jens.
Skrifar hann að af sömu ástæðu hafi allt verið lagt í sölurnar innan Þjóðkirkjunnar til þess að halda uppi endalausum vörnum fyrir biskup. „Má þó öllum ljóst vera, sem þekkja biskupsferil hennar, að hún er óheiðarleg og undirförul og algjörlega ófær um að axla þá ábyrgð sem biskupstign fylgir,“ skrifar Kristinn Jens.
Eins og DV hefur fjallað um þá hefur er Séra Kristinn Jens allt annað en sáttur við Þjóðkirkjuna en hann hefur stefnt kirkjunni fyrir dóm. Hann var síðasti sóknarpresturinn í Saurbæjarprestakalli í Vesturlandsprófastsembætti, embætti sem hann gegndi frá því í júní árið 1996 allt þar til að prestakallið var lagt niður árið 2019.
Sjá einnig: Séra Kristinn stefnir Þjóðkirkjunni – Atvinnulaus og tekjulaus eftir að prestakallið var lagt niður – DV
Ástæða þeirrar ákvörðunar voru sagðar þrálátar myglu – og rakaskemmdir í prestsbústaðnum en kirkjuráð taldi á endanum of kostnaðarsamt að ráðast í þær úrbætur sem tryggja myndu að húsnæðið yrði ekki framar heilsuspillandi fyrir Kristinn Jens og fjölskyldu hans.
Kristinn Jens telur Þjóðkirkjuna vera skaðabótaskylda við sig vegna þess hvernig að þessum málum var staðið. Hefur hann stefnt Þjóðkirkjunni fyrir héraðsdóm þar sem aðalkrafan er sú að viðurkennt verði með dómi skaðabótaskylda Þjóðkirkjunnar gagnvart honum vegna þess tjóns sem hann varð fyrir vegna ákvörðunar kirkjuþings um að leggja Saurbæjarprestakall niður og ákvörðunar biskups í kjölfarið um að leggja niður sóknarprestsembætti hans.