Þetta er niðurstaða nýrrar rannsóknar að sögn Sky News sem segir að höfundar rannsóknarinnar segi að sjúkrahús eigi að bjóða starfsfólki sínu upp á kennslu varðandi þetta og íhuga að mæla gegn því að fólk bori í nefið þegar vinnureglur varðandi sýkingarhættu eru gefnar út.
Það voru hollenskri vísindamenn sem rannsökuðu gögn um COVID-19 smit meðal 219 starfsmanna á sjúkrahúsi í Amsterdam. Náði rannsóknin yfir tímabilið frá mars 2020 til október sama ár.
Þeir gerðu einnig yfirlitsrannsókn varðandi nefbor heilbrigðisstarfsfólksins og aðra hugsanlega áhættuþætti eða líkamlega þætti sem gátu valdið hættu á sýkingu.
Af starfsmönnunum 219 smituðust 34, eða 16%, af COVID-19 á rannsóknartímanum. Meirihlutinn, 85%, viðurkenndi að stunda nefbor, að minnsta kosti óviljandi, og voru karlar og yngra fólk líklegra til að viðurkenna þennan slæma ávana.
17,3% af nefborurunum greindust með COVID-19 en 5,9% þeirra sem ekki boruðu í nefið.
Engin tengsl fundust á milli þess að naga neglur, nota gleraugu eða þess að vera með skegg og meiri hættu á að smitast af COVID-19.
Rannsóknin hefur verið birt í PLOS One vísindaritinu.