Í lok síðasta mánaðar var Mohammad Hassan meðal tuga manna sem voru að klífa K2, næsthæsta fjall veraldar. Þegar hann átti skammt eftir á tindinn féll snjóflóð á hann með þeim afleiðingum að hann féll niður af syllu og slasaðist alvarlega. Hassan endaði í skafli sem var aðeins 400 metra frá tindi K2. Hann var svo alvarlega slasaður að hann hefði þurft á læknishjálp að halda þegar í stað.
Í nýju myndbandi má sjá alls 50 fjallgöngumenn á leið á tindinn stíga yfir Hassan og gera ekki eina einustu tilraun til að koma honum til hjálpar. Talið er að fólkið hafi alls ekki viljað gera hlé á fjallgöngunni svo skammt frá tindinum. Athafnaleysi þeirra hefur vakið mikla hneysklan meðal annarra fjallgöngumanna.
Hassan var 27 ára gamall, pakistanskur ríkisborgari og kvæntur þriggja barna faðir. Að lokum kom einn fjallgöngumaður honum til hjálpar og náði að halda honum vakandi í stutta stund en það endaði með því að Hassan lést.
Hollenskur fjallgöngumaður sem hafði snúið aftur í grunnbúðir fyrr um daginn vegna slæmra skilyrða segir að það sé skelfilegt að svo margir hafi hunsað Hassan. Hann segir Hassan hafa orðið fórnarlamb keppnisskaps fjallgöngumannanna sem stigu yfir hann en að í mesta lagi hefði þurft 3-4 einstaklinga til að hjálpa honum.
Menn sem voru á staðnum segja þó að myndbandið sýni ekki alla atburðarásina. Lakpa Sherpa, sem tók myndbandið, sagði að nokkrir fjallgöngumenn hefðu reynt að bjarga Hassan. Hann sagði ekki hægt að ætlast til þess að allur hópurinn, sem hefði greitt mikið fé fyrir leiðangurinn, hefði gefið gönguna upp á bátinn. Aðstæður á þessum stað á K2 séu einnig gríðarlega erfiðar og ómöguegt sé að hreyfa sig án þess að hafa reipi sér til fulltingis.
Hann vildi einnig meina að Hassan hefði verið varaður við því að búnaður hans væri ekki nógu góður og hann ekki nógu vel búinn fyrir gönguna. Hassan hafi einnig verið varaður við slæmu veðri við tindinn en hann hafi einfaldlega ekki hlustað á neinar viðvaranir.
Búlgörsk fjallgöngukona sem var í sömu ferð á K2 og Hassan sagði á Facebook að fjallið væri miskunnarlaust. Hún sagði að ef eitthvað færi úrskeiðis væri ekki hægt að vænta skjótrar björgunar.
Það hefur vakið enn meiri hneysklan að skömmu eftir andlát Hassan hélt hópur fjalllgöngumannanna sem stigu yfir hann, þar sem hann lá dauðvona, sérstaka veislu til heiðurs norsku fjallgöngukonunni Kristin Harila. Eftir að hún náði á tind K2 í þessari örlagaríku ferð setti hún nýtt heimsmet en hún kleif fjórtán hæstu fjöll heims á aðeins þremur mánuðum. Harila segir hug sinn og bænir hjá fjölskyldu Hassan.
Það var Daily Mail sem greindi frá.