fbpx
Mánudagur 25.nóvember 2024
Fréttir

Ása Guðbjörg barðist við að halda aftur tárunum eftir að nágrennið snerist gegn henni – „Ég er ein“

Ritstjórn DV
Föstudaginn 4. ágúst 2023 12:35

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það hafa fáir Íslendingar vakið meiri athygli á erlendri grundu undanfarnar vikur en Ása Guðbjörg Ellerup, sem þó hefur ekkert gert til að eiga þessa óumbeðnu athygli skilið annað en ganga í hjónaband fyrir rúmum tuttugu árum. Eiginmaður hennar, sem hún er sem stendur að skilja við, er í heldi lögreglunnar í New York er er hvorki meira né minna en grunaður um að vera raðmorðingi. Vika er síðan Ása fékk að snúa aftur á heimili sitt í Long Island eftir að lögregla lauk rannsókn sinni á vettvangi.

Þar beið hennar mikil eyðilegging enda hafði lögregla snúið öllu við en hirti ekki um að ganga frá eftir sig. Ása og börn hennar höfðu varla rúm til að leggja sig í lengur.

Nú hefur Ása Guðbjörg greint frá því að nágrannar hennar hafi krafist þess að hús hennar verði rifið. Hún tjáði sig við DailyMail um þessa erfiðu stöðu en þar að auki væri ágangur fjölmiðla farinn að fylla hana af vonleysi og rætnar slúðursögurnar sem fólk geri lítið til að fela frá henni hafi orðið til þess að hún veigrar sér við að fara út úr húsi. Hún segist í raun upplifa sig sem fanga á sínu eigin heimili. Hún geti ekki farið út því alls staðar mæti henni dómhörð augnaráð vegfarenda, sem svo baktali hana jafnvel þó hún heyri í þeim.

„Ég vil ekki einu sinni rölta niður mína eigin götu. Ég heyri hvað fólk segir um okkur, ég heyrði það“ […] Nágrannarnir vilja húsið burt. Þau vilja jafna það við jörðu,“ sagði Ása og átti erfitt með að halda aftur tárunum.

„Ég heyrði í fólkinu í nágrenninu. Þau vilja jafna húsið við jörðu. Skilurðu það? Gerðu það, ég get ekki rætt þetta meir.“

Ég er ein

Ása Guðbjörg hefur, eins og áður segir, farið fram á skilnað við Rex, sem kom fáum á óvart. Það sem kom þó á óvart var þegar greint var frá því að skilnaðurinn væri fyrst og fremst til þess að veita Ásu skjól frá þeim afleiðingum sem mál manns hennar gæti haft, en mögulega gætu aðstandendur hinna látnu reynt að stefna fjölskyldunni til að heimta skaðabætur.

Þrátt fyrir að ekki verði sagt að allir nágrannar hennar hafi tekið höndum saman til að styðja Ásu á þessum erfiðu tímum, en það verður seint kallaður stuðningur að kalla eftir því að heimili manns til áratuga verði eytt, þá hafa þó sumir nágrannar reynst dýrmætir. Þeir hafa komið með matarpakka, gjafabréf og annað sem gæti stutt við Ásu og börn hennar. Svo stofnaði dóttir HappyFace-raðmorðingjans GoFundMe-síðu til að tryggja að Ása þyrfti ekki, ofan á allt annað, að hafa fjárhagsáhyggjur og ætti í sig og á. Einn blaðamaður fyrir utan hús hennar ákvað þó að spyrja sökum þessa hvort Ása liti svo á að hún ætti skilið að fá peninga, en þá svaraði Ása:

„Ég veit ekki hvernig ég á að svara þessu, ef fólk vill ekki styðja mig? Hvað á hún að segja, að ég eigi þetta ekki skilið? Ég er ein.“

Hún geri í raun lítið annað en að gráta, en ástandið á heimilinu sé svo þungt að jafnvel fjölskylduhundurinn finnur fyrir streitu. Hún hafi fundið útvarp og reynt að nota það til að dreifa huganum. Hún hafi einnig fundið hatt og sólgleraugu og það hafi verið ákveðinn hápunktur, en hún er hvorki með nettengingu né sjónvarp.

Þeir sem vilja styrkja Ásu geta gert slíkt hér. Segir um söfnunina að Ása sé ekki á þeim stað í dag að geta talað um hryllinginn og óttann sem hún og fjölskylda hennar eru að upplifa núna og þó svo margir haldi því fram að Ása sé efnuð og hafi fjármagn til að hefja nýtt líf, þá sé raunveruleikinn svo að enginn viti það fyrir víst, enda þekkt að menn eins og Rex beiti bæði fjárhagslegu og andlegu ofbeldi.

Um hvað snýst málið?

Málið má rekja til líkamsleifa sem fundust á Gilgo-ströndinni á árunum 2010 og 2011. Meðal þeirra látnu voru fjórar konur sem ljóst var að áttu ýmislegt sameiginlegt, svo sem hvernig líkum þeirra hafði verið komið fyrir, hvernig þeim var banað og svo höfðu þær allar verið í vændi. Það er því ekki að undra að lögreglu hafi frá upphafi grunað að sami aðili bæri ábyrgð á dauða kvennanna, sem allar höfðu verið myrtar á mismunandi tíma. Hér væri því raðmorðingi á ferðinni, og hann þyrfti að finna.

Ekki gekk rannsóknin þó eins og smurt brauð. Þar sem hér væri raðmorðingi á ferðinni væri ólíklegt að sá kæmi úr nánasta tengslaneti kvennanna, en eins og margir vita þá eru flest morð svokallaðir ástríðuglæpir og konur því oftast myrtar af mökum sínum. Sérfræðingar voru fengnir til að gaumgæfa gögn málsins og gera tillögu út frá þeim um hvers konar einstaklingur myndi fremja þessi brot. Hluti af þessum tillögum var birtur opinberlega í von um að það leiddi til þess að vitni gæfu sig fram.

En á sama tíma hafði lögregla þó vitneskju um eitt vitni, herbergisfélagi einnar konunnar sem fannst látinn, en sá hafði sagt lögreglu að hann teldi sig vita hvaða skjólstæðingur konunnar hefði banað henni og það sem meira var – hann mundi vel hvernig bíl sá maður ók. Þetta ákvað lögregla að láta sem vind um eyru þjóta og það var ekki fyrr en á seinasta ári eftir að nýr starfshópur hafði tekið við rannsókninni sem vitnið var yfirheyrt og í framhaldinu beindust sjónir að Rex Heuermann, sem er giftur Ásu Guðbjörgu. Eftir umfangsmikla rannsókn bak við luktar dyr tókst lögreglu að komast yfir lífsýni úr bæði Ásu og Rex og þá fóru hjólin á fulla ferð því lífsýni þeirra beggja höfðu fundist með hinum látnu. Fljótlega varð ljóst að Ása gæti ekki mögulega átt hlut að máli þar sem hún var á ferðalagi þegar þrjár konurnar létu lífið. Rannsóknin leiddi svo til þess að Rex var handtekinn þann 13. júlí og í kjölfarið ákærður fyrir þrjú morð, en talið er að fjórða ákæran muni bætast við innan tíðar. Rex var handtekinn á göngu sinni niður götu í Manhattan. Þetta afréði lögregla sökum vitneskju um fjölda vopna á heimili hans.

Á sama tíma sat Ása Guðbjörg heima með börnum sínum. Þá ruddist lögregla inn á heimilið og snéri lífi hennar á hvolf.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Þessir tíu leikskólar hafa samþykkt að fara í verkfall 10. desember

Þessir tíu leikskólar hafa samþykkt að fara í verkfall 10. desember
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sjaldséð eining í borgarráði – „Þetta hljóti að verða komið gott“

Sjaldséð eining í borgarráði – „Þetta hljóti að verða komið gott“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Hrafnhildur Bridde fasteignasali ákærð fyrir fjárdrátt upp á yfir 115 milljónir króna

Hrafnhildur Bridde fasteignasali ákærð fyrir fjárdrátt upp á yfir 115 milljónir króna
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Pútín-skandall í Moskvu – Tík!

Pútín-skandall í Moskvu – Tík!