fbpx
Laugardagur 23.nóvember 2024
Fókus

Halda minningu Hrannar á lofti og varðveita arfleifðina – „Það voru allir vinir hennar. Hún peppaði fólkið áfram, hældi og lét fólki líða vel“

Erla Dóra Magnúsdóttir
Þriðjudaginn 1. ágúst 2023 19:00

Hrönn og eiginmaður hennar, Sæmundur Bæringsson. Mynd/Anna María Írisardóttir

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hrönn Sigurðardóttir, atvinnumaður í Ólympíufitness og eigandi BeFit Iceland lést fyrir mánuði siðan eftir snarpa en erfiða baráttu við sjaldgæft krabbamein. Hún greindist með meinið í maí á seinasta ári eftir mikla þrautagöngu þar sem hún þurfti að berjast fyrir greiningu. Hún barðist eins og ljón fyrir lífinu og var tilbúin að leita allra leiða til að ná heilsunni aftur. Þó að meinið hafi sigrað á endanum stendur eftir minningin um sterka og hugrakka konu sem hefur snert líf margra á stuttri ævi, en hún var aðeins 44 ára þegar hún lést. Hrönn lætur eftir sig eiginmann, fjögur börn og arfleifðina sem er BeFit Iceland.

Sjá einnig: Hrönn var send heim af bráðamóttöku með ógreint krabbamein og sagt að borða banana – „Það kemur ekki til greina að ég drepist án þess að berjast“

Nú hefur eiginmaður hennar, Sæmundur Bæringsson og góðir vinir tekið höndum saman til að halda BeFit gangandi og heiðra þar með minningu Hrannar, en BeFit var hennar ástríða. Síðar í þessum mánuði kemur í verslunina síðasta flíkin sem Hrönn hannaði, en um er að ræða hettupeysu fyrir öll kyn sem nú hefur fengið yfirhalningu og nafngift til að endurspegla þá baráttukonu sem á bak við peysuna stóð.

Gyðja visku og hernaðarkænsku

„Hrönn byrjar að vinna í þessari peysu á svipuðum tíma og hún fer að skoða það að fara til Spánar í stofnfrumumeðferðina. Sniðið var til og hún hafði notað það áður en þá var hún ekki rennd alveg niður eins og þessi er. Þetta er hlý og mjúk hettupeysa úr góðu bómullarefni og er unisex [fyrir öll kyn],“ segir Sæmundur í samtali við Fókus. Peysan hefur hlotið nafnið Athena eftir grísku gyðju visku og hernaðarkænsku. Á peysunni má svo finna listaverk sem faðmar þann sem klæðist henni að sér. Áður en Hrönn lést fór hún, eftir að hafa fengið mikinn og góðan stuðning, til Spánar þar sem hún gekkst undir stofnfrumumeðferð í von um að ná tökum á meininu. Þar var hún stödd þegar hún lést.

„Myndina málar hún Sibba Arndal, vinkona okkar hjóna, og hún málaði og seldi þessa mynd til að styrkja Hrönn svo hún kæmist til Spánar. Sibba segir að hugmyndin sé sú að í hvert skipti sem að Hrönn knúsaði fólk þá leið fólki eins og það væri margir að knúsast í einu vegna þess að Hrönn knúsaði alltaf fast og innilega.

Hún Bára Jónsdóttir (Bára Beauty) vinkona Hrannar stakk upp á þessu nafni og mér fannst það eiga svo vel við elsku Hrönn og þess vegna lét ég peysuna heita þessu nafni. Hugrökk, kraftmikil, vitur.“

Gaman er að nefna að nafnið verður enn meira viðeigandi í ljósi þess að Aþena var einnig gyðja vefnaðar og handverks. Hún var verndari grísku borgarinnar Aþenu og fylgigoð hennar var sigurgyðjan Níke sem íþróttavörumerkið Nike dregur nafn sitt frá, en Hrönn hannaði einmitt íþróttafatnað.

„Hrönn var búin að forvinna þessa peysu og það var ekkert eftir nema að leggja lokahönd á þetta verkefni, fá sýnishorn sent til Íslands og segja af eða á. Við erum búin að eiga viðskipti við sömu saumastofu í Pakistan í mörg ár. Hrönn hannaði vöruna, bjó til snið í öllum stærðum, sem er gífurleg vinna, og sendi þau svo út í tölvutæku formi og lét sauma eftir þeim. Svo rekum við líka saumastofu í Mörkinni þar sem BeFit Iceland er til húsa og þar er stór hluti af vörunum líka saumaður.“

Íþróttabuxur sem láta fólki líða vel

Kveikjan að BeFit Iceland var sú að Hrönn, sem var mikið fyrir hreyfingu, vildi fá buxur sem væru meira en bara ræktarbuxur heldur flíkur sem gætu fyllt konur af sjálfsöryggi.

„Hrönn byrjaði að hanna æfingarbuxur af nokkrum ástæðum. Henni fannst vanta buxur sem að konur gætu æft í sem að væru ekki gegnsæjar, t.d. þegar þær taka hnébeygjur. Henni fannst vanta buxur sem væri með extra háan aðhaldsstreng og svo fannst henni vanta buxur sem að gerðu eitthvað fyrir rassinn og þannig byrjaði hún með þetta hjartalaga snið sem býr til flottan kúlurass, en það snið er auðvitað komið út um allt í dag. Einnig hefur BeFit Iceland alltaf boðið upp á þá þjónustu að skipta um streng á buxunum, t.d. þegar að kona verður ólétt – þá kemur hún með buxurnar og stelpurnar í saumastofunni okkar setja óléttustreng, svo eftir meðgöngu getur hún komið aftur og fengið venjulegan streng gegn vægu gjaldi – Ég veit ekki til þess að nein önnur fatabúð bjóði upp á þessa þjónustu.“

Heldur áfram með hjálp frá vinum og starfsfólki

Þó enginn geti komið í stað Hrannar þá ætlar Sæmundur að halda þessu vörumerki lifandi og þó hann hafi þekkt reksturinn og verið með Hrönn í honum þá hafi hún verið alfa og ypsilon og þurfi því margar hendur á dekk til fylgja í fótspor hennar.

„Þó að ég hafi rekið BeFit Iceland með henni alla tíð, og verið með henni í þessu meira og minna, þá er engin leið fyrir mig né nokkurn annan að koma í staðinn fyrir hana. hún var heilinn og drifkrafturinn alla tíð og lagði allt í þetta verkefni. Dag og nótt. En ég mun með hjálp frá góðum vinum og frábæru starfsfólki halda áfram á sömu braut. Þannig ég tel að framtíð BeFit Iceland sé björt og að fyrirtækið eigi mikið inni. Í þessum erfiðu veikindum var auðvitað ekki hægt að sinna rekstrinum sem skildi. Ekki eins mikið um nýjar vörur og okkur langaði og ekki hægt að keyra í gegn meiri markaðssetningu þar sem allir dagar voru undirlagðir af baráttu við þennan bölvaða krabba.“

BeFit Iceland byggir á því að allir eigi að geta verslað sér góð íþróttaföt, sama hvernig fólk er í laginu og sama hvað það er stórt.

„Hennar hugmyndafræði var sú, og mun verða áfram, að allir geti komið og verslað sér vönduð íþróttaföt, alveg sama hvort þú sért lítil eða stór og alveg sama hvert vaxtarlagið er. Það eiga allir að geta fundið föt sem passa og fengið góða þjónustu. Allir sem versluðu hjá Hrönn fundu það hratt að hún kom ofboðslega vel fram við alla. Það voru allir jafningjar. Það voru allir vinir hennar. Hún peppaði fólkið áfram, hældi og lét fólki líða vel í eigin skinni.

Að lokum vil ég nota tækifærið og þakka kærlega fyrir alla þessa frábæru viðskiptavini sem við eigum. Bæði nýja og gamla. Það er algjörlega ómetanlegt að finna alla þessa velvild frá öllum og munum gott fólk – að lífið er núna.“

Hægt er að kaupa peysuna í forsölu hér, en hún er væntanleg í kringum 25. ágúst.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Sharon Osbourne dauðsér eftir Ozempic – „Þetta sýnir bara hætturnar við þessi lyf sem lofa árangri strax“

Sharon Osbourne dauðsér eftir Ozempic – „Þetta sýnir bara hætturnar við þessi lyf sem lofa árangri strax“
Fókus
Í gær

Simmi Vill segir að þetta sé stærsta kjarabótin fyrir íslenskar fjölskyldur – „Nú verð ég kallaður karlrembupungur“

Simmi Vill segir að þetta sé stærsta kjarabótin fyrir íslenskar fjölskyldur – „Nú verð ég kallaður karlrembupungur“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Segja atvikið í bardaganum sýna að úrslitin hafi verið fyrir fram ákveðin

Segja atvikið í bardaganum sýna að úrslitin hafi verið fyrir fram ákveðin
Fókus
Fyrir 3 dögum

Dómnefnd FKA skipuð fyrir árlega viðurkenningarhátíð 

Dómnefnd FKA skipuð fyrir árlega viðurkenningarhátíð 
Fókus
Fyrir 3 dögum

Kynlífsóðu klámstjörnunni sparkað úr landi

Kynlífsóðu klámstjörnunni sparkað úr landi
Fókus
Fyrir 4 dögum

„Konur sem sætta sig við framkomu sem þær eiga ekki skilið eru kannski í samböndum sem þeim líður ekki vel í“

„Konur sem sætta sig við framkomu sem þær eiga ekki skilið eru kannski í samböndum sem þeim líður ekki vel í“