fbpx
Þriðjudagur 16.júlí 2024
Fókus

Bryndís á stærsta Barbiesafn Íslendinga – ,,Ég mun alltaf heillast af Barbie”

Ragna Gestsdóttir
Þriðjudaginn 1. ágúst 2023 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kvikmyndin Barbie er nú ein vinsælasta kvikmynd heims, og hefur aukið enn meira á vinsældir dúkkunnar vinsælu, vina hennar og fylgihluta. Mörg okkar fullorðnu eiga minnst eina Barbiedúkku ofan í skúffu eða sitjandi upp í hillu. Svo eru það þeir sem safna Barbie markvisst og líklega er það hafnfirðingurinn Bryndís Arngrímsdóttir sem á stærsta Barbiesafn Íslendinga.

„Fyrstu Barbie dúkkurnar fékk ég frá mömmu minni þegar ég var fimm eða sex ára gömul þær voru Heart Family Barbie fjölskylda með mömmu, pabba og tveimur börnum (ég á þær enn)og ég hef alltaf heillast af Barbie síðan,“ segir Bryndís aðspurð um hvenær hún eignaðist fyrstu Barbiedúkkuna.

Bryndís sjö ára með Barbie húsið sitt.

Bryndís er 43 ára, fædd og uppalin í Hafnarfirði, en hún flutti til Winnipeg í Kanada árið 2011, þar sem hún starfar á leikskóla. „Ég var í leiklistarnámi fyrstu tvo árin mín hér. Ég á fjögur börn og einn lítinn stjúpson og eru börnin á aldrinum 8 til 23 ára.  Áhugamálin mín hafa alltaf verið Barbie, sund, ljósmyndun, tónlist og leiklist.“

Börn Bryndísar eru safnarar líka, en safna þó ekki Barbie dúkkum að hennar sögn, en hún segir þau safna sem dæmi Funko Pop Figures, sverðum, plötum og steinum. 

Alltaf farið með vel dúkkurnar

Í safninu hennar Bryndísar má finna dúkkur bæði frá æsku hennar og dúkkur sem hún hefur safnað markvisst á fullorðinsárum.

„Fyrstu dúkkurnar fékk ég eins og áður sagði þegar ég var barn, og sem barn átti ég um það bil 60 dúkkur sem ég lék mér með með vinkonum mínum. Barbie hús og húsgögn í tvö hús, bíl, hest, leikvöll, sundlaug, tjald og margt margt fleira. Þetta á ég allt ennþá og hef þetta í hjónaherberginu hjá mér. Ég lék mér alltaf mikið með Barbie og geymdi mínar dúkkur vel. Litla systir mín María Rós fékk svo að leika með mínar dúkkur og svo dóttir mín líka. Þegar þær voru hættar að leika með Barbie fór ég að setja þær allar upp á hillu í hjónaherberginu og með árunum hefur safnið stækkað og stækkað,“ segir Bryndís. 

Hluti af safninu hennar Bryndísar.

Finnur Barbie á loppumörkuðum

Og aðspurð um hvort hún sé að safna segir hún: 

„Já ég er enn að safna og það eru nokkuð margar sem mig langar ennþá í og ég á örugglega eftir að safna alla ævi. Ég hef gaman af því að fara á loppumarkaði hérna í Kanada og finn þar flestar dúkkurnar mínar. Ég safna og heillast mest af dúkkum frá áttunda og níunda áratugnum, en á líka nokkrar frá sjöunda áratugnum og fáeinar frá árinu 2000.“

Safnið telur 270 dúkkur

Safnarar líkt og Bryndís safna oft hlutum meira af áhuga og ástríðu en vegna peningalegs gildis, en hvað er safnið stórt og hver er verðmætasti hluturinn peningalega?

„Ég á um 270 dúkkur, Barbiehús, húsgögn, bíl, hest, skó, föt, leikvöll og fleira,“ segir Bryndís.  „Peaches and cream Barbie frá 1984 sem er enn í kassanum er trúlega verðmætasta dúkkan sem ég á. Ég hef séð þær fara á $400-$500 kanadíska dollara. En ég fékk hana á $100 (sem var sirka 10 þúsund krónur) fyrir nokkrum árum.“

Hvaða dúkka/hlutur er þér hjartfólgnust án tillits til peningalegs verðmætis og af hverju?

„Heart fjölskyldan sem mamma gaf mér er mér mjög kær og Tropical/Island Fun Barbie sem amma gaf mér. Þær eru mér mjög kærar og ég lék mér mest með þær. Og 1989 Jóla Barbie sem ég fékk frá Önnu frænku sem ég tímdi ekki að leika mér með og hafði alltaf upp á hillu.“

Hvað segir fólk um safnið, færðu á þig gagnrýni að vera fullorðin og safna leikföngum, eða finnst fólki þetta bara skemmtilegt?

„Þegar ég segi fólki að ég safni Barbie dúkkum fæ ég mjög misjafnar athugasemdir en þegar ég sýni myndir af safninu eða þegar fólk sér það með eigin augum þá er það alltaf mjög hrifið, enda er safnið mjög fallegt. Og ég merki dúkkurnar allar með nöfnunum sínum og ártali sem þær komu á markaðinn. Stundum tekur smá tíma að finna út hver Barbie dúkkan er en það hefst á endanum,“ segir Bryndís.

„En krökkunum mínum finnst mamma svolítið skrítin stundum með allt þetta Barbie dót og sérstaklega þegar ég er að þrífa þær og greiða og gera þær tilbúnar fyrir hilluna,“ segir Bryndís og hlær. „Þegar ég finn dúkkur eru þær yfirleitt með mjög illa farið hár og þarf þá að þvo það og nota hárnæringu til að ná hárinu silkimjúku aftur. Þær verða að líta nákvæmlega eins út og þær komu úr kassanum svo það er alveg ágætis vinna að gera hárið og fötin nákvæmlega eins. En þetta er alveg svakalega skemmtilegt áhugamál og ég hef svo gaman af að finna nýjar dúkkur sem eru vel með farnar og ég mun alltaf heillast af Barbie.“

Það er vel við hæfi að enda á að spyrja Bryndísi hvort hún hafi séð Barbie myndina og þá hvernig henni líkaði hún. „Já var einmitt að sjá hana í gær [mánudag] og hafði mikið gaman af. Fannst hún alveg frábær.“

 

Safnið telur 270 dúkkur og fullt af fylgihlutum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 4 dögum

Frosti úthúðar fyrrverandi vinnufélaga sínum

Frosti úthúðar fyrrverandi vinnufélaga sínum
Fókus
Fyrir 4 dögum

Beverly Hills höll Bennifer formlega komin í sölu – Sjáðu myndirnar

Beverly Hills höll Bennifer formlega komin í sölu – Sjáðu myndirnar
Fókus
Fyrir 5 dögum

Eddie Vedder segist hafa verið hætt kominn – Pearl Jam hættu við tónleika í London sem margir Íslendingar ætluðu á

Eddie Vedder segist hafa verið hætt kominn – Pearl Jam hættu við tónleika í London sem margir Íslendingar ætluðu á
Fókus
Fyrir 5 dögum

Leikarinn steinrunninn á meðan myndband af eftirmála voðaskotsins var spilað

Leikarinn steinrunninn á meðan myndband af eftirmála voðaskotsins var spilað