fbpx
Mánudagur 25.nóvember 2024
Fréttir

Arkitekt dauðans – Ása Guðbjörg snúin aftur heim og sendir blaðamönnum fingurinn – „Plís, látið mig í friði“

Ritstjórn DV
Föstudaginn 28. júlí 2023 11:58

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Rex Heuermann er nú í gæsluvarðhaldi í New York grunaður um að vera hinn alræmdi Gilgo-strandar morðingi og vera með minnst þrjú morð á samviskunni. Hann var handtekinn þann 13. júlí og vakti það gífurlega athygli þar sem um er að ræða mál sem lögregla hefur haft til rannsóknar í rúman áratug og ekki er það á hverjum degi sem meintur raðmorðingi er afhjúpaður.

Málið hefur eins vakið mikla athygli á Íslandi en Rex er giftur íslenskri konu, Ásu Guðbjörgu Ellerup, sem á rætur að rekja til Keflavíkur þó svo hún hafi alla ævi verið búsett í Bandaríkjunum, en kjörforeldrar hennar fluttu þangað á sjöunda áratug síðustu aldar og bjuggu þar svo alla tíð, þó svo þau hafi síðar haft annan fótinn hér á Íslandi, átt hér íbúð og varið mikið af frítíma sínum þar. Móðir Ásu er látin en faðir hennar býr enn í New York ásamt systur Ásu, doktor Jóhönnu Kristínu. Faðir systranna er á tíræðisaldri og mun málið hafa reynst honum erfitt.

Öskraði á blaðamenn

Ása Guðbjörg og börn hennar, Victoria og Christopher, sneru aftur á heimili sitt í Long Island gær þar sem lögregla hefur lokið þar störfum. Þó lögregla sé ekki lengur að leita sönnunargagna í húsinu hefur gífurlegur áhugi almennings gert það að verkum að húsið er umsetið af blaðamönnum, ljósmyndurum og svo forvitnum spennufíklum.

Þegar Ása mætti á vettvangi rigndi yfir hana spurningum frá blaðamönnum og brást hún við því með því að öskra á þá og biðja um næði.

„Ekki tala við mig. Viltu taka. myndir? Gjörðu svo vel.. Ekki tala við mig.“

Sonur hennar úr fyrra hjónabandi, Christopher, gekk að húsinu og virtist þurrka tár framan úr sér og skýldi augum sínum. Hann sagði við fjölmiðla að hann væri reiður.

Ásu var fylgt að húsinu af manni sem talið er að sé rannsóknarlögreglumaður. Hún fékk sér svo sæti á bekk fyrir framan húsið og klappaði hund.

Fjölmiðlamenn létu sér ekki segjast og spurðu Ásu hvort hún ætli sér að dvelja áfram á heimili sínu.

„Plís, látið mig í friði. Það kemur ykkur ekki neitt við.“

Hún sendi blaðamönnum svo fingurinn.

Bara fengið eina heimsókn í fangelsið

Mun Ása hafa dvalið með börnum sínum á hóteli síðan Rex var handtekinn. Lögregla hefur gefið upp að Ása sé samstarfsfús, en hún hefur sótt um skilnað frá Rex.

Samkvæmt Express hefur Rex aðeins fengið eina heimsókn síðan hann var hnepptur í gæsluvarðhald, og það var verjandi hans. Hvorki Ása né börn þeirra hafa heimsótt hann. Rex hefur nú verið í haldi síðan 13. júlí og er í svokallaðri sjálfsvígsvöktun. Hann er einn í klefa sínum en má horfa á sjónvarp og lesa dagblöð. Hann má eins taka við tölvupóstum og hefur aðgengi að lögfræðibókasafni fangelsisins. Honum er svo heimilt að stunda líkamsrækt í fangelsisgarðinum.

Öryggisráðstafanir eru þó nokkrar. Hann má til að mynda aðeins fara út úr klefa sínum þegar enginn annar fangi er á ferð, og þegar enginn starfsmaður er á ferð. Þetta mun vera gert til að tryggja öryggi Rex, starfsmanna og annarra fanga, en munu sumir fangar líta á það sem ákveðna manndómsvígslu að hafa hendur í hári meints raðmorðingja og sýna honum hvar Davíð keypti ölið.

Einrænn og ófélagslyndur

Fjölmiðlar velta nú öllum steinum við til að reyna að finna nýjan vinkil á máli Rex. New York Times birti í dag ítarlega grein þar sem farið var yfir fortíð arkitektsins.

Hann gekk í gagnfræðiskóla í Massapequa Park en útskriftar árgangur ársins 1983 fagnaði nýlega 40 ára útskriftarafmæli sínu. Þessi árgangur útskrifaðist tveimur árum á eftir Rex svo um tíma voru þau öll í sama skóla á sama tíma. Um fátt annað var rætt á þessum endurfundum en handtakan og þeir glæpir sem Rex er talinn sekur um.

Þau minntust hans sem fórnarlambs aðstæðna. Hann hafi vissulega átt til að vera kvikindislegur en hann hafi komið úr erfiðum heimilisaðstæðum og skólagangan var honum erfið. Hann var sem gangandi skotmark og varð fyrir miklu einelti.

„Hann var aðilinn sem allir níddust  á,“ sagði einn fyrrum samnemandi í samtali við New York Times og tók fram að Rex hafi ekki tilheyrt neinum sérstökum hópum, taldist hvorki meðal nörda, íþróttagaura eða skrópara. „Hann lenti í miklu einelti og hann lét sig hafa það og gekk bara burt. Ég sá honum ýtt út á ystu nöf.“

Rex hafi verið vandræðalegur og hávaxinn á miðstigi og hafi hópur nemenda einu sinni tekið sig til og reynt að ganga í skrokk á honum. Kennara tókst þó að koma í veg fyrir það og þá greip hópurinn á að hreyta í hann ókvæðisorðum og beita hann andlegu ofbeldi. Þegar Rex varð táningur tók hann svo vaxtarkipp og varð mjög hávaxinn og ógnvekjandi.

„Ég var mjög hræddur við hann. Hann var þessi týpa af gaur þar sem ef hann missti stjórn á sér gat hann virkilega meitt mann. Hann var bitur og villuráfandi. Maður þurfti að fara mjög varlega í kringum hann.“

Rex hafi verið utanveltu í skóla, var feiminn, notaði gleraugu og stundaði félagslífið lítið sem ekkert. Hann hafi til að mynda aldrei tekið þátt í útskriftarafmælum eða haldið nokkrum tengslum við samnemendur í gegnum samfélagsmiðla.

„Þetta er áfall. Við þekktum hann. Hann var nördalegur og klár,“ sagði annar fyrrum samnemandi.

Varð ekki hissa þegar hann frétti af handtökunni

„Þegar ég frétti að hann hefði verið handtekinn, þá varð ég ekki hissa. Ég sagði – Guð minn góður, það stemmir. Þetta er skrítinn gaur,“ sagði samnemandi Rex úr leikskóla. „Hann var einrænn og hljóðlátur. Maður sá hann aldrei með neinum og hann talaði nánast aldrei. Hann þótti skrítinn og þótti vera aðili sem maður hefði ekkert saman við að sælda.“

Leikarinn Billy Baldwin gekk í sama skóla og Rex. Hann sagði í viðtali nýlega að hann hafi gjarnan heilsað Rex á göngum skólans og þeir hafi verið saman í tímu. Rex hafi aldrei passað inn í þá hópa sem höfðu myndast í skólanum en Billy þótti samt aldrei nokkur ógn stafa af honum.

„Mér fannst hann ekki skrítinn, óhugnanlegur eða svo óvenjulegur að það gæti endaði svona. Hann var frekar feiminn, óöruggur og virtist líða illa. Ég myndi ekki segja að hann hafi verið útlagi en hann átti erfitt með að falla í hópinn og finna sitt fólk.“

Samdi illa við föður sinn

Rex ólst upp með þremur eldri systrum og yngri bróður. Faðir hans var eldflaugaverkfræðingur sem hafði gaman að smíðum. Þetta áhugamál smitaðist yfir til Rex sem smíðaði húsgögn í bílskúr sínum. Þeim feðgum samdi þó illa. Faðir hans var strangur og fannst Rex ekki nógu metnaðarfullur. Faðir hans lést þegar Rex var 12 ára gamall. Eftir það voru systkinin alin upp af móður sinni.

Líkt og sem unglingur var Rex einrænn sem barn. hann var heimakær og átti sér lítið sem ekkert félagslíf. Hann naut sín þó í teiknitímum, enda átti hann eftir að læra arkitektúr. Hann þótti óþægilegur í samskiptum og átti erfitt með að halda uppi samræðum.

Eftir gagnfræðisskóla eyddi Rex nokkrum árum í hlutastörfum þar sem hann sinnti þrifum og viðhaldi. Síðan fór hann í tækniskólann í New York til að læra arkitektúr. Eftir útskrift stofnaði hann sitt eigið fyrirtæki og sinnti ráðgjafastörfum og sá til þess að endurbætur á húsum væru í samræmi við byggingarreglur.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Þessir tíu leikskólar hafa samþykkt að fara í verkfall 10. desember

Þessir tíu leikskólar hafa samþykkt að fara í verkfall 10. desember
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sjaldséð eining í borgarráði – „Þetta hljóti að verða komið gott“

Sjaldséð eining í borgarráði – „Þetta hljóti að verða komið gott“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Hrafnhildur Bridde fasteignasali ákærð fyrir fjárdrátt upp á yfir 115 milljónir króna

Hrafnhildur Bridde fasteignasali ákærð fyrir fjárdrátt upp á yfir 115 milljónir króna
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Pútín-skandall í Moskvu – Tík!

Pútín-skandall í Moskvu – Tík!