Ragna Erlendsdóttir er 43 ára, einstæð móðir sem margir Íslendingar kannast við en hafa ekki fengið að kynnast. Ragna á mikla og stóra sögu sem ekki hefur fengið að heyrast, hingað til. Hún er nýjasti viðmælandi hlaðvarpsins Sterk saman.
Ragna ólst upp til sex ára aldurs á Grundarfirði en móðir hennar var aðeins 16 ára þegar hún eignaðist hana. Foreldrar hennar skildu og Ragna flutti til Reykjavíkur með móður sinni en faðir hennar sem var mikið þunglyndur hélt í nám erlendis og átti hans þunglyndi eftir að hafa áhrif á líf Rögnu og sjálfsmynd alla tíð.
„Ég man eftir dögunum sem ég sat og beið eftir símtölum eða með töskuna en hann kom ekki. Ég upplifði mikla höfnun.‟
Fljót að fyrirgefa
Ragna segir líka frá því að pabbi hennar hafi oft sofið þegar hún loks fékk að fara til hans en hún hafi alltaf verið fljót að fyrirgefa honum. „Ég fyrirgaf honum alltaf strax, sama hvað en var langrækin og oft ósanngjörn við mömmu. Ég var mjög viðkvæmt barn og tilfinningarík, í þá daga var ég það ekki tekið gilt og ég átti að vera dugleg og hætta þessu væli.‟
Ragna upplifði sig eina á móti heiminum snemma á unglingsárunum. Draumurinn frá barnsaldri var að læra hárgreiðslu og byrjaði hún á því eftir grunnskólann en flutti að heiman 16 ára og hætti í skóla.
„Ég hætti í skóla, sem ég hefði ekki átt að gera, en ég missti tökin og fór að prófa fullt af hlutum og drakk mikið.‟
Við tók nokkurra ára tímabil í lífi Rögnu sem einkenndust af flótta frá tilfinningum, undan sjálfri sér og leit að tilgangi. Hún flutti milli landa og kynntist barnsföður sínum á Englandi en þau voru saman í og með í tíu ár og eignuðust saman þrjár dætur.
Ragna lýsir upphafi sambands þeirra svona: „Ég vissi ekki að hann væri ekki alveg búinn að ljúka fyrra sambandi en hann átti tveggja ára son og var í neyslu á þessum tíma. Hann beitti mig andlegu ofbeldi, notaði mjög ljót orð og henti bara í mig diskum og hrinti mér. Þetta var mjög toxic strax en ég hélt að ef ég elskaði hann nógu mikið gæti ég bjargað honum.‟
Draumar og raunveruleiki
Ragna átti sér draum, eignast börn með manninum sem hún hafði fundið, hús með hvítu girðingunni og eiga sína hárgreiðslustofu. Allt eins og í bíómynd.
„Í fæðingu fyrstu dóttur okkar, Jasmínar, sagði hann við mig að hann ætlaði að fara, hann væri ekki fjölskyldumaður, og fór.‟
Tíminn leið, áfram bjó Ragna í einhvern tíma á Englandi en flakkaði þó eitthvað á milli. Barnsfaðir hennar hafði tak á henni og hann var þráhyggjan hennar, eins og hún orðar það sjálf.
Önnur dóttir þeirra, Ella Dís, fæddist einnig á Englandi en hún, eins og systir sín, fæddist heilbrigð og fullkomin en meðgangan var erfið og Ragna ofboðslega veik allan tímann. „Það var um eins og hálfs árs aldur sem hún allt í einu datt framfyrir sig án þess að setja hendurnar fyrir sig og braut tönn sem ég sá að það væri eitthvað að,‟segir hún og bætir við að hún hafi farið með Ellu Dís til læknis þar sem hún datt fyrir framan lækninn og hann sá þetta, hendurnar voru fyrstar til að lamast.
Ragna segir frá ferlinu sem tók afar stuttan tíma en Ella Dís fékk ranga greiningu á Íslandi. Hún, sem áhyggjufull móðir, var orðin sérfræðingur í barninu sínu, vélum sem hún þurfti að vera tengd og umönnun hennar.
„Ég las endalaust, var búin að benda á þessa greiningu löngu áður, Google-aði allt sem ég gat, gjörgæslulæknar bökkuðu oft og sögðu leyfum henni að gera þetta, hún kann þetta. Ég blés í hana lífi, ég var róleg í öllum aðstæðum, ég kunni þetta þó þetta væri hræðilega erfitt alltaf.‟
Sex mánuðir ólifaðir
Ragna hélt úti vinsælu bloggi á sínum tíma, Ella Dís vann hjörtu Íslendinga en miðað við þá greiningu sem íslensku læknarnir gáfu henni átti hún einungis sex mánuði ólifaða.
Sex mánaðum síðar var Ella Dís hætt að anda sjálf og komin í vél sem aðstoðaði hana. Á þeim tímapunkti kom pabbi þeirra systra til Íslands til að aðstoða með þær.
„Ég hafði lítið sem ekkert sofið, elsku Jasmín mín gleymdist svolítið í þessu öllu. Pabbi þeirra kom svo ég gat hvílt mig aðeins á daginn“. Tíminn leið. Mía, yngsta dóttir þeirra fæddist. „Ég var að eignast Míu á kvennadeildinni á meðan Ella Dís lá á gjörgæslunni“. Aðspurð um viðbrögð fólks við því að ætla að eignast annað barn á þeim tímapunkti segir Ragna: „Vá, ég hef aldrei verið spurð að þessu. Það voru mjög misjöfn viðbrögð. Ég ætlaði í fóstureyðingu, ég var ógeðslega hrædd og ég hafði ekkert að gefa, fyrir utan líka að þetta barn var að fæðast inn í caos. Mark vildi ekki fóstureyðingu og auðvitað gat ég ekki hugsað mér það þegar ég fann fyrir henni. Svo varð hún algjört drauma ungabarn.‟
Eðli málsins samkvæmt var mikil hræðsla og kvíði í kringum þann aldur sem Ella Dís hafði veikst en líf Rögnu hefur verið fast í fight or flight eða ótta/flótta viðbragði síðan Ella Dís veiktist, ef ekki fyrr.
Ragna fann lækni í London sem var tilbúinn að gera aðgerð á Ellu Dís sem hafði mistekist í tvígang á Íslandi. Í kjölfar þeirrar ákvörðunar hennar hófst martröð, eins og hún orðar það. Kerfið á Íslandi snerist gegn henni, læknar, barnavernd og hreinlega fólkið á Íslandi.
„Ég hef ekki jafnað mig, þetta var mannorðsmorð. Ég var niðurlægð, þorði varla út úr húsi, fékk ekki að hafa Ellu Dís hjá mér, þurfti að heimsækja hana undir eftirliti og um tíma voru hinar dætur mínar teknar af mér, í eitt sumar.‟
Það sem Ragna var sökuð um, af stjórnvöldum, var að hún þjáðist af Munchausen syndrome, sem er óskiljanlegt og afar alvarleg ásökun.
Fólk í kommentakerfum landsins sagði: „Barnavernd og stjörnvöld myndu aldrei segja svona nema það væri satt eða hafa eitthvað fyrir sér í því“.
Ómannúðlegt kerfi
Jasmín og Mía, ásamt Rögnu, þjást allar af áfallastreytu. Fyrir utan að eiga langveikt barn og systur sem blánaði, hætti að anda og þurfti umönnun allan sólarhringinn, alla daga þá tala þær systur mest um framkomu barnaverndar og Ragna um hversu ómannúðlegt kerfið er.
Frásögn Rögnu er á köflum afar átakanleg en eftir að hafa þurft að berjast við kerfið á Englandi og Íslandi var Ella Dís í úrræði á vegum Reykjavíkurborgar ætlað unglingum með mikinn heilaskaða en hún aðeins 8 ára gömul og ekki með heilaskaða.
„Ég sá rauðu flöggin, í byrjun var starfsfólk með ákveðna menntun og þekkingu að hugsa um hana svo með tímanum urðu kröfurnar minni og stundum fólk sem hafði ekki neina reynslu eða kunnáttu. Ég mátti samt ekki hugsa um hana, ég mátti bara heimsækja hana undir eftirliti.‟
Daginn örlagaríka voru gerð alvarleg mistök og Ella Dís varð fyrir miklum súrefnisskorti.
Áður en þetta gerðist var Ella Dís á batavegi, þrátt fyrir að hún hefði líklega aldrei náð fullum bata þá var hún komin á rétt lyf eftir að læknar á Englandi höfðu greint hana en Ella Dís var með efnaskiptasjúkdóm og þurfti hvorki heyrntæki né gleraugu eftir að hafa fengið B vítamín í risa skömmtum.
Það sem Rögnu sárnaði mest og hún skilur ekki enn er að eftir að Ella Dís var orðin heiladauð fór barnavernd í forræðismál við hana.
„Ég var að missa barnið mitt, hún var heiladauð og það gerðist í þeirra umsjá en þau ákváðu á þeim tímapunkti að reyna að taka af mér forræðið.‟
Það má hlusta á viðtalið við Rögnu í heild sinni á hlaðvarpinu Sterk saman.