fbpx
Sunnudagur 24.nóvember 2024
Fréttir

Hinn óhugnanlegi „Gilgo-Beach-raðmorðingi“ ákærður í Bandaríkjunum- Er giftur íslenskri konu sem um tíma var grunuð í málinu

Ritstjórn DV
Laugardaginn 15. júlí 2023 10:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Maðurinn, sem handtekinn var í gær í New York vegna gruns um að vera „Gilgo Beach“-raðmorðinginn sem hélt New York-fylki í heljargreipum árið 2010, er giftur íslenskri konu. DNA-sýni á vettvangi morðanna tengdu hann við morðin en segja má að það hafi verið pizzapöntun sem varð honum loks að falli. Hefur hann verið ákærður fyrir morð á þremur konum árin 2009 og 2010 og þá er hann efstur á lista grunaðra í fjórða morðinu.

Ása Guðbjörg var um tíma grunuð

Hinn meinti raðmorðingi heitir Rex Heuermann og er 59 ára gamall og er eiginkona hans, Ása Guðbjörg Ellerup, jafngömul. Þau eiga saman eina dóttur auk þess sem þau ólu saman upp barn Heuermann frá fyrra sambandi. Erlendir miðlar hafa nafn- og myndgreint Ásu í umfjöllun sinni um málið en upphaflega beindist grunur að henni því hár hennar fundust á vettvangi sumra morðanna. Við frekari rannsóknir komst lögregla að þeirri niðurstöðu að hún hefði fjarvistarsannanir, meðal annars var hún stödd á Íslandi þegar eitt morðið átti sér stað.

Heuermann er farsæll arkitekt í New York og rekur stofuna RH Consultants and Associates ytra. Hann lýsti yfir sakleysi sínu í dómssal í gær, þar sem hann er sagður hafa virst tilfinningalaus. Hann var úrskurðaður í gæsluvarðhald án möguleika á því að vera sleppt gegn tryggingu og mætir næst fyrir dómara þann 1. ágúst næstkomandi.

Raðmorðinginn hélt samfélaginu í heljargreipum

Morðin sem hann er ákærður fyrir hafa gengið undir nafninu „Morðin á Gilgo Beach.“ Þau komu upp á yfirborðið í lok árs 2010 og vöktu mikinn óhug ytra og  héldu samfélaginu í heljargreipum. Meðal annars var gerð Netflix-heimildarmynd um morðin árið 2020 sem ber heitið „Lost Girls.“

Þann 11. desember 2010 fannst lík hinnar 24 ára gömlu Melissu Barthelemy, sem hvarf árið 2009, við Gilgo Beach í New York, vafið inn í trefjadúk, og á næstu dögum fundust lík þriggja annarra kvenna nærri sem höfðu horfið á árunum 2007 til 2010 og gengið var frá með sama hætti. Megan Waterman, 22 ára,  Amber Lynn Costello, 27 ára, og  Maureen Brainard-Barnes, 25 ára. Allar konurnar voru kynlífsverkakonur og urðu þekktar undir nafninu „Gilgo-fjórmenningarnir.“

Í loks árs 2011 voru líkin á svæðinu orðin alls 11 talsins, alls níu konur. karlmaður og ungt barn. Lögregla taldi ólíklegt að sami morðingi hafi verið að verki í öll skiptin sem gerði rannsókn málanna afar flókna. Að svo stöddu er Rex Heuerman aðeins ákærður fyrir þrjú morð á þeim Barthelemy, Waterman og Costello, en hann er að auki efstur á lista grunaðra vegna morðsins á Brainard-Barnes.

Var með fjarvistarsannanir

Eins og áður segir fundust hár af eiginkonu Heuermann, hinni íslensku Ásu Guðbjörgu Ellerup á þremur líkana, og því var hún upphaflega grunuð um aðkomu að morðunum, segir í fréttum erlendra miðla. Ferða- og farsímagögn hafi hins vegar leitt í ljós að hún hafi ekki verið í fylkinu þegar morðin áttu sér stað. Hún var stödd á Íslandi þegar Melissa Barthelemy hvarf í júlí 2009 og var stödd í Maryland þegar Megan Waterman hvarf í júní 2010. Þá var hún stödd í New Jersey þegar Amber Costello hvarf seint í ágúst eða byrjun september 2010.

Það vekur þó athygli að hár Ásu er sagt hafa fundist á belti sem notað var til að binda fætur  Maureen Brainard-Barnes en eiginmaður hennar hefur ekki enn verið ákærður fyrir það morð. Hins vegar fundust tvö hár af Ásu á líkama Megan Waterman  og annað hár á líki Amber Costello.  Telja rannsakendur að hárin úr Ásu hafi borist á vettvang morðanna með eiginmanni hennar.

Hafði mikinn áhuga á framvindu rannsóknarinnar

Í fréttum erlendra miðla kemur fram að yfirvöld hafi verið að fylgjast með Heuermann undanfarna átján mánuði. Hann er talinn hafa nálgast fórnarlömb sín í gegnum Tinder-prófíla sem tengdir voru við tölvupóstföng. Hann notaði óskráða farsíma til þess að vera í þessum samskiptum en virðist þó hafa farið inn á suma þessara netfanga með persónulegum síma sínum.

Óskráðu símanna virðist hann hafa notað til þess að framkvæma viðurstyggilegar leitir á netinu, meðal annars af grófu klámefni og ekki síður til að fylgjast vel með rannsókn Gilgo-morðanna sem hann virðist hafa haft mikinn áhuga á. Þá hafi hann einnig haft mikinn áhuga á fórnarlömbum sínum og flett upp miklu magni af myndum af þeim og fjölskyldum þeirra.

Komust loks yfir DNA-sýni úr pizzukassa

Þegar rannsókn morðanna var í hámæli var gefin út lýsing á hinum grunaða sem stemmir skuggalega vel við Rex Heuermann. Þar var lýst eftir tröllslegum manni, með þykkt hár, vel máli farinn og greinilega vel menntaðan. Þá hafi hann keyrt á trukk af gerðinni Chevrolet en svipaður bíll var gerður upptækur þegar Heuermann var handtekinn.

Að endingu voru það leifar af pizzu sem negldu málið gegn Heuermann. Lögreglumenn höfðu þá setið um heimili hans um hríð en þann 26. janúar á þessu ári var pizzukassa hent í ruslið við heimili hjónanna. Í kassanum fannst hár af Heuermann sem yfirvöld gátu tengt við DNA-sýni sem fundust af karlmanni á vettvangi morðanna.

Heuermann var svo handtekinn fimmtudaginn 13. júlí síðastliðinn og þá hófst fjölmiðlafár sem enn sér ekki fyrir endann á.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Þessir tíu leikskólar hafa samþykkt að fara í verkfall 10. desember

Þessir tíu leikskólar hafa samþykkt að fara í verkfall 10. desember
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sjaldséð eining í borgarráði – „Þetta hljóti að verða komið gott“

Sjaldséð eining í borgarráði – „Þetta hljóti að verða komið gott“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Hrafnhildur Bridde fasteignasali ákærð fyrir fjárdrátt upp á yfir 115 milljónir króna

Hrafnhildur Bridde fasteignasali ákærð fyrir fjárdrátt upp á yfir 115 milljónir króna
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Pútín-skandall í Moskvu – Tík!

Pútín-skandall í Moskvu – Tík!