fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Fréttir

Björgunarsveitarmaður segir öryggi í Árnessýslu verulega ábótavant

Jakob Snævar Ólafsson
Fimmtudaginn 13. júlí 2023 18:00

Gullfoss er einn besti sótti ferðamannastaðurinn í Uppsveitum Árnessýslu og þar hafa orðið alvarleg slys sem oft tekur langan tíma að bregðast við/Wikimedia

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Haraldur Helgi Hólmfríðarson björgunarsveitarmaður, sem búsettur er á Laugarvatni, ritaði í gær grein á Vísi þar sem hann gerir athugasemdir við og lýsir áhyggjum af ástandi og skipulagi öryggis-, björgunar- og velferðarmála í Uppsveitum Árnessýslu.

Hann segir viðbrögð á svæðinu við alvarlegum slysum ganga of hægt fyrir sig:

„Í fyrra varð banaslys á þekktum ferðamannastað í Uppsveitum Árnessýslu og fyrsti „viðbragðsaðili” á staðinn var rúmlega hálftíma á staðinn frá því að útkall berst, og 15 mínútum síðar komu þeir næstu. Ég set orðið viðbragðsaðili í gæsalappir því samkvæmt huglægu mati lögreglustjóra á Suðurlandi virðist skipta máli hvaða vindátt er á Selfossi hvort ég flokkist sem slíkur.“

Að sögn Haraldar kom hann að banaslysi sem varð á Laugarvatnsvegi í síðastliðinni viku. Biðin eftir viðbragðsaðilum hafi líka verið löng í því tilfelli og af einhverjum ástæðum hafi viðbragðsaðilar sem staðsettir voru næst slysstaðnum ekki verið kallaðir út:

„Biðin eftir viðbragðsaðilum var óþægilega löng, sjálfsagt eins og hún er alltaf þegar líf liggur við, en það sem stakk mig svolítið i þessu var það að enginn viðbragðsaðili frá næstu slökkvistöð (Laugarvatni í þessu tilviki) var kallaður út og fréttu bara af slysinu i fréttum.“

Haraldur nefnir að framundan séu breytingar hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands sem séu áhyggjuefni fyrir íbúa Uppsveita Árnessýslu. Engin bakvakt lækna verði á svæðinu eftir 1. september næstkomandi og flytja eigi heilsugæslustöðina í Laugarási á Flúðir.

Hann segir að í Bláskógabyggð og Grímsnes-og Grafningshreppi séu, samkvæmt fasteignaskrá, samtals 5415 sumarhús og til viðbótar við það séu íbúar sem hafi fasta búsetu í sveitarfélögunum. Algengt sé á svæðinu að meira en 40 mínútna akstur sé á næsta sjúkrahús. Þar að auki fari fjöldi ferðamanna um svæðið á degi hverjum.

Haraldur segir að gagnstætt því sem heyra megi frá forsvarsfólki ferðaþjónustunnar þá sýnist honum augljóst að innviðir lands með aðeins 370.000 íbúa séu komnir að þolmörkum:

„Heilbrigðisþjónustan, löggæslan, slökkvilið/sjúkraflutningar, vegakerfið og sjálfboðaliða samtök sem sinna neyðarþjónustu hafa ekki þróast né stækkað í takti við aukinn straum ferðamanna til landsins.“

Hann kallar eftir auknum viðbúnaði í Uppsveitum Árnessýslu:

„Hvenær í ósköpunum gerist það og hvað þarf eiginlega að ganga á áður en sjúkrabíll fær fasta stöð í Uppsveitunum og lögregla sér fram á að bíll sé á svæðinu að staðaldri?“

Hann tekur fram að sjúkraflutningamaður sé á vakt í þjóðgarðinum á Þingvöllum en þjóðgarðurinn greiði fyrir það og sjúkraflutningarmaðurinn fari yfirleitt ekki út fyrir þjóðgarðinn. Einnig sé lítill hópur á Flúðum sem sinni hlutverki vettvangsliða á því svæði og upp að Gullfossi og Geysi. Meira þurfi hins vegar að koma til.

Haraldur spyr að lokum hvort að hrepparígur geti virkilega verið svo inngróinn að íbúar Uppsveita Árnessýslu mæti afgangi í þessum efnum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 11 klukkutímum

Erna segir skilið við Miðflokkinn en hafði sóst eftir oddvitasæti – „Miðflokkurinn gekk úr mér“

Erna segir skilið við Miðflokkinn en hafði sóst eftir oddvitasæti – „Miðflokkurinn gekk úr mér“
Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Össur tætir Pírata í sig: „Málefnalega skipta þau ekki lengur máli“

Össur tætir Pírata í sig: „Málefnalega skipta þau ekki lengur máli“
Fréttir
Í gær

Alexandra lætur Sigmund Davíð fá það óþvegið: „Er maðurinn fimm ára?“

Alexandra lætur Sigmund Davíð fá það óþvegið: „Er maðurinn fimm ára?“
Fréttir
Í gær

Sigurður Ingi skýtur hugmynd Miðflokksins í kaf: „Já, þetta er vitlaus hugmynd“

Sigurður Ingi skýtur hugmynd Miðflokksins í kaf: „Já, þetta er vitlaus hugmynd“