Kalvin Phillips, leikmaður Manchester City, vonast til að næsta tímabil verði betra fyrir hann persónulega en það síðasta.
Miðjumaðurinn gekk í raðir City frá Leeds síðasta sumar en var í algjöru aukahlutverki þegar lærisveinar Pep Guardiola unnu þrennuna.
Phillips ætlar sér að vera í stærra hlutverki á næstu leiktíð og horfir til Jack Grealish, sem átti mun betra annað tímabil hjá City en fyrsta.
„Ég hef þekkt Jack í mörg ár. Ég hef spilað gegn honum oft. Ég veit að hann er líka mikill fjölskyldumaður. Hann elskar fjölskyldu sína, er náinn þeim og hann hefur auðvitað glímt við erfiða tíma þegar hann var yngri einnig,“ segir Phillips.
„Við tókum svipað skref á ferlinum nema bara með árs millibili. Ég horfi til Jack og annað tímabil hans veitir mér innblástur,“ segir Phillips, en Grealish gekk í raðir City frá Villa 2021.
„Hann átti erfitt fyrsta ár og ég líka. Vonandi get ég snúið hlutunum við.“