Mál Rudy Farias sem var sautján ára gamall þegar hann hvarf árið 2015 í gönguferð með hundana sína hefur vakið mikla athygli vestanhafs. Hundarnir skiluðu sér heim en ekki Rudy og hófst víðtæk leit að honum í borginni Houston í Texas-fylki í Bandaríkjunum.
Leitin skilaði engum árangri og virtist ekkert vitað um afdrif Rudy þar til núna í byrjun apríl þegar karlmaður fannst meðvitundarlaus fyrir utan kirkju í sömu borg, alsettur marblettum og sárum. Frekari eftirgrennslan leiddi í ljós að Rudy var fundinn, átta árum eftir að hann hvarf.
Sjá einnig: Fannst um helgina eftir að hafa verið týndur í átta ár – Var sautján ára þegar hann hvarf
Eins og DV hefur áður fjallað um taldi móðir hans að honum hefði verið haldið gegn vilja hans, nágrannar þeirra furðuðu sig á málinu öllu og sögðu Rudy alls ekki hafa verið horfinn og eftir yfirheyrslur hjá lögreglu viðurkenndu mæðginin að hafa blekkt almenning og lögreglu. Rudy hefði aldrei verið horfinn heldur skilað sér á heimili sitt tveimur dögum eftir að hann átti að hafa horfið.
Rudy hefur nú stigið fram í viðtali hjá Fox 26 Houston og opnað sig um málið allt, lýsir hann máli sínu sem dæmigerðu Stokkhólmsheilkenni og móðir hans, Janie Santana, hafi heilaþvegið hann. Segist hann hafa verið „bara fastur heima“ öll þessi ár „eins og ég byggi í fangelsi. Hún læsti mig aldrei inni eða handjárnaði mig eða neitt slíkt. Ég gat farið, mér leið bara eins og ég væri heilaþveginn.“
Sjá einnig: Saknað í átta ár en nágrannar komu af fjöllum vegna hvarfs hans – Sannleikurinn lygi líkastur
Martröðin byrjaði þegar hann var unglingur
Rudy segir martröðina hafa byrjað um það leyti sem hann fékk hraðaksturssekt þegar hann var unglingur. „„Ó, þú verður handtekinn vegna þess að þú ert með sekt,“ sagði mamma. Þetta jókst bara eftir það, skilurðu,“ segir Ruby í viðtalinu.
Aðspurður um hvernig móðir hans gat ráðskast með hann sem fullorðinn mann, sagði hann að sér fyndist mál sitt „eins og Stokkhólmsheilkenni“ og vísaði til sálfræðilegs fyrirbæris þess að fórnarlamb samsamaði sig ofbeldismanni/mönnum sínum.
„Það er bara, þú veist, þú verður bara ástfanginn af ofbeldismanninnum og vilt bara sjá um hann, gerðu hitt og þetta,“ sagði Farias og bætti við að hann vildi sjá um mömmu sína „af því mér þótti vænt um hana. Hún er eina manneskjan sem ég á að.“
Eldri bróðir Rudy, Charles, lést í mótorhjólaslysi 13. febrúar 2011, 21 árs að aldri. Eftir andlát hans bjuggu Rudy og móðir hans ein á heimili þeirra.
Segir hann móður sína ítrekað hafa haldið aftur af honum með andlegu ofbeldi og neikvæðum athugasemdum.
„Þú veist, eins og hún hafi verið að setja hugmyndir eða hugsanir inn í hausinn á mér þegar ég var bara að reyna, þú veist, bara skilja heiminn,“ segir Rudy.
Faldi sig þegar móðirin fékk heimsóknir
Segist hann hafa falið sig í svefnherbergi sínu þegar fjölskylda og vinir komu í heimsókn.
„Þegar einhver kom sagði mamma mér að vera inni í herberginu, halda hurðinni læstri, ekki hleypa þeim inn [og] gefa frá mér engin hljóð. Ég heyrði í fjölskyldunni minni glaðri og kátri hinu megin við helvítis dyrnar. Mig langaði til að öskra á þau, en á sama tíma gat ég það ekki. Eina manneskjan sem ég gat treyst var mamma mín.“
Rudy segir einnig að móðir hans hafi neytt hann til að sofa í rúmi hennar, hún hafi þó ekki beitt hann kynferðislegu ofbeldi. „Þetta var ekkert kynferðislegt eða neitt slíkt. Ég myndi ekki ljúga því vegna þess að það er fullt af fólki sem þarf ekki á slíkum ósannindum að halda þegar kemur að slíkum málum.“
Þegar Rudy var spurður hvort hann hefði einhvern tíma spurt mömmu sína hvers vegna þau væru að láta eins og hann væri týndur sagðist hann ekki muna það.
„Ég bara get það ekki, ég man það ekki. Það er eins og ég blokki það bara út.“
Allt snerist um peninga hjá móðurinni
Segist hann hafa spurt móður sína hvenær hann gæti fengið vinnu, átt bíl og tekið sínar eigin ákvarðanir.
„Hvenær getum við bara farið út og verið frjáls? Af hverju getum við ekki bara farið á lögreglustöðina? Af hverju get ég ekki bara fengið lögfræðing?“
Sem móðir hans hafi svarað með: „Þú getur ekki fengið lögfræðing vegna þess að það kostar of mikið. Allt var alltaf bara peningar, peningar, peningar, peningar. Þetta voru stöðugt peningar.“
Og þegar hann var spurður hvort hann og mamma hans eigi eðlilegt mæðginasamband, sagði hann: „Ekki eftir allt þetta. Ekki eftir allt sem hún gerði og satt að segja vil ég ekki eiga slíkt með henni.“
Rudy hefur undanfarið dvalið á heimili vinar síns. Ættingjar þeirra hafa lýst móðurinni sem svikakvendi. „Hún hefur átt nokkra eiginmenn, gengið undir öðrum nöfnum,“ sagði systir hennar, Pauline Sanchez-Rodriguez, við The Post. „Hún er mjög gráðug manneskja. Þetta snýst allt um peninga.“
Lögreglan hefur hingað til neitað að ákæra mæðginin fyrir blekkingar, en rannsóknin er enn í gangi.