Á leiðtogafundi aðildarríkja NATO, sem fór fram í Vilnius í vikunni, var stórhuga varnaráætlun samþykkt. Áætlunin telur mörg þúsund blaðsíður og útskýrir í smáatriðum hvernig á að verjast rússneskri árás.
Það er stríðið í Úkraínu sem veldur því að NATO endurlífgar sameiginlegar varnir sínar en sameiginlegar varnaráætlanir hurfu af sjónarsviðinu í kjölfar hruns Sovétríkjanna og Varsjárbandalagsins.
„Við erum sannfærð um að Rússar munu endurreisa (her sinn að stríðinu í Úkraínu loknu, innsk. blaðamanns). Þess vegna byggjast áætlanirnar ekki á núverandi ástandi rússneska hersins, heldur á ástandi rússneska hersins áður en hann réðst inn í Úkraínu,“ sagði Rob Bauer, aðmíráll og yfirmaður hernaðarnefndar NATO, um áætlunina.
Hann dró enga dul á að áætluninni hefur verið flýtt um 18 mánuði vegna þeirrar alvarlegu stöðu sem er uppi. Það mun þó taka aðildarríkin mörg ár að ná að uppfylla markmið áætlunarinnar.