Í samtali við heilsuvef CNN segir bandaríski sálfræðingurinn Jenny Yip, sem rekur meðal annars miðstöð sem aðstoðar börn sem glíma við námsörðugleika, að ekki sé hægt að skýra frestunaráráttu með leti.
Hún segir að leti lýsi sér þannig að fólk hafi einfaldlega engan áhuga á að takast á við það verkefni sem það forðast en þau sem glími við frestunaráráttu eigi í erfiðleikum með að hugsa um verkefnin og eigi þess vegna erfitt með að ljúka þeim. Á þessu sé mikill munur.
Kollegi Yip, Linda Sapadin, hefur ritað bók um frestunaráráttu á stafrænni öld. Hún segir mismunandi ástæður geta legið að baki því að fólk fresti því að takast á við aðkallandi verkefni og nefnir til sögunnar fullkomnunaráráttu, draumóra, áhyggjur eða þrá til að ögra. Að baki þessum ástæðum sem hún nefnir liggja þó engar fræðilegar greiningar eða rannsóknir segir Jenny Yip.
Frestunarárátta getur haft skaðleg áhrif á árangur fólks í starfi og einkalífi. Rannsóknir hafa einnig sýnt fram á tengsl milli hennar og þunglyndis, kvíða, streitu, svefnvandamála, hreyfingarleysis, einmanaleika auk fjárhagslegra erfiðleika.
Til að takast á við frestunaráráttu er nauðsynlegt að greina ástæðurnar fyrir henni hjá hverjum og einum því mismundandi ástæður krefjast mismunandi lausna en þó geta fleiri en ein ástæða legið að baki áráttunni.
Yip segir fullkomnunaráráttu algenga skýringu á frestunaráráttu. Einstaklingur með fullkomunaráráttu geri svo miklar kröfur til sjálfs sín að hann þurfi að hafa mikið fyrir því að takast á við verkefni sín og ef ekki er áætlun til staðar um hvernig á að ljúka verkefnunum lendir viðkomandi í öngstræti.
Þau sem lenda í klóm frestunaráráttunnar vegna þess að þau hafa of miklar áhyggjur eru oftast óákveðin og treysta á ráð annarra áður en þau taka frumkvæði. Þessi hópur á líka erfitt með að þola breytingar.
Fólkið sem frestar öllu vegna fullkomunaráráttu og fólkið sem slær hlutunum á frest vegna áhyggja gerir það vegna ótta við að mistakast eða verða fyrir gagnrýni. Fyrrnefnda hópnum er ráðlagt að hafa það í huga að hugmyndir hans um árangur séu óraunhæfar og heppilegra sé að miða við eitthvað raunhæfara og að leyfa sjálfum sér að mistakast.
Fólk sem leitar á náðir frestunaráráttunnar vegna draumóra finnst gaman að fá góðar hugmyndir en finnst öll praktísku smáatriðin sem þarf að huga að til að koma þeim í framkvæmd leiðinleg. Yip ráðleggur þessu fólki að reyna að læra að greina á milli draumóra og markmiða og gera tímaáætlun um hvenær og hvernig ná skal markmiðunum.
Síðasti hópurinn, sem frestar vegna vilja til að ögra, lítur á lífið út frá væntingum og kröfum annarra en ekki út frá eigin vilja. Þetta viðhorf er sagt letja þetta fólk til að ljúka verkefnum sínum. Þessum hóp er ráðlagt að finna jákvæðar leiðir til að taka stjórnina og að vinna með samtarfsfólki sínu en ekki gegn þeim. Ef eitthvað verkefni er óþægilegt þá er betra að tala um það við þá manneskju sem felur viðkomandi verkefnið en að fara í ögrunargírinn. Slík samtöl sé hægt að eiga.
Að sögn viðmælenda CNN þá er ekki auðvelt að takast á við frestunaráráttu sérstaklega ef ástæðurnar liggja djúpt í sjálfsmynd viðkomandi. Ef verkefni mistekst getur það ýtt þeim viðkæmustu fram af hinni andlegu bjargbrún.
Jenny Yip segir að lokum að þetta snúist á endanum um að trúa því að maður geti lokið verkefnum sínum. Ef fólk trúir því ekki verður það fast í viðjum frestunaráráttunnar.