Hópur sjómanna kom saman í nótt við Alþingishúsið til að fremja gjörning sem hugsaður er til mótmæla stöðvun á strandveiðum.
Samkvæmt tilkynningu frá Fiskistofu verða veiðarnar stöðvaðar frá og með deginum í dag. Skip sem er með strandveiðileyfi má þó veiða í dag að því gefnu að það hafi áður verið með veiðileyfi. Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra gerði breytingar á reglugerð um strandveiðar á fiskveiðiárinu 2022-23, síðastliðinn mánudag, sem veitti Fiskistofu heimild til að stöðva veiðarnar.
Þetta eru sjómenn, einkum þeir sem stundað hafa strandveiðar, afar ósáttir við. Í nótt komu þeir saman við Alþingishúsið og frömdu mótmælagjörningin sem fólst í því að sturta fiskhausum á stéttina fyrir framan aðaldyr hússins. Fyrir aftan hausana komu þeir fyrir skilti með helstu upplýsingum um kosti strandveiða.
Þar kemur meðal annars fram að veiðarnar séu umhverfisvænustu fiskveiðar sem Íslendingar stunda, 700 manns missi atvinnuna, um sé að ræða brot á úrskurði mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna, kolefnisspor strandveiða sé 500 sinnum minna en kolefnisspor veiða sem stundaðar eru með botntrollum. Sjómennirnir minna á að smábátaveiðar og sauðkindin hafi gert Ísland byggilegt og spyrja hvort stjórnvöldum standi á sama um umhverfismál og komandi kynslóðir.
Miðað við myndir, sem bárust DV, af gjörningnum kom lögreglan á vettvang en líklega var honum þá lokið og sjómennirnir komnir í næga fjarlægð til að sleppa undan armi laganna varða.
Ekki fylgir sögunni hvað verður um fiskhausana sem nýttir voru í gjörningnum