fbpx
Sunnudagur 15.desember 2024
Fréttir

Lögreglukonunni Anítu Rut hefndist fyrir ummæli um Þórhildi, Öfga og „vælandi kerlingar niðri í bæ“ – Heimtaði 4 milljónir en fær ekki krónu

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 11. júlí 2023 17:55

Aníta Rut Harðardóttir hefur sent frá sér yfirlýsingu

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Lögregluvarðstjórinn Aníta Rut Beck Harðardóttir vakti töluverða athygli árið 2020 þegar athygli var vakin á merkjum sem hún bar á lögreglubúningi sínum, en merkin þóttu vísa til rasisma og öfgaskoðana. Aníta kvartaði í kjölfarið til siðanefndar Blaðamannafélags Íslands þar sem hún kærði umfjöllun um fánamálið, eins og það hefur verið kallað. Taldi siðanefnd ekki tilefni til að ávíta blaðamenn sem komu að umfjölluninni.

Nánast sléttu ári síðar vakti Aníta aftur athygli, þegar hún var harðlega gagnrýnd fyrir ummæli sem hún lét falla annars vegar um Þórhildi Gyðu Arnarsdóttur, og hins vegar um baráttusamtökin öfga.

Í fyrra tilvikinu hafði Aníta deild frétt Mannlífs um að Þórhildur Gyða tryði ekki yfirlýsingu sem knattspyrnumaðurinn Aron Einar Gunnarsson gaf út í tengslum við ásökun í hans garð um hópnauðgun. Með deilingunni skrifaði Aníta: „Full á djamminu.is“ en þeirri fullyrðingu var augljóslega beint að Þórhildi Gyðu. Gerði Aníta nánari grein fyrir ummælum sínum í samtali við miðilinn 24.is, sem ekki er til lengur, og bætti við að hún teldi það ónauðsynlegt að trúa skilyrðislaust þeim sem stíga fram og kalla sig þolendur.

Eins deildi Aníta frétt mannlífs þar sem fjallað var um baráttuhópinn Öfga og færslur sem hópurinn hafði birt á Twitter um að suð um kynlíf, sem leiði til þess að maki gefur eftir og stundar kynlíf þvert á sinn vilja, sé dæmi um nauðgun. Sagði Aníta um þá frétt: ég bilast (broskallar) held að þessi „HER“ ætti að breyta nafninu sínu í Psychoherinn, þvílíka bullið.“

Vöktu þessar færslur, sem og fleiri ummæli sem Aníta lét falla á opinberum vettvangi, töluverða reiði í garð lögreglunnar. Meðal annars fór varaþingmaður Pírata, Lenya Rún Taha Karim, fram á að lögreglan svaraði fyrir málið til að koma því skýrt á framfæri að afstaða Anítu væri ekki lýsandi fyrir afstöðu embættis lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu til þolenda kynferðisbrota.

Vælandi kerling niðri í bæ

Hlaut Aníta í kjölfarið áminningu í starfi, enda var talið að ofangreind ummæli væri niðrandi, ómálefnaleg og ekki í samræmi við starfsskyldur hennar. Gekk embættið síðar lengra og flutti Anítu til í starfi til að hún hefði ekki mögulega aðkomu að tilkynningum þolenda kynferðisbrota, en möguleiki var á slíkri aðkomu þar sem hún heyrði undir almenna deild. Aníta ákvað að sætta sig ekki við þessi málalok og höfðaði mál gegn lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu og íslenska ríkinu. Þar fór hún fram á 4 milljónir í miskabætur og að áminningin yrði ógilt.

Kemur fram í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem féll þann 30. júní, að eftir að þau ummæli sem hafa hér verið rakin féllu hafi mannauðsstjóri haft samband við hana. Á þessum tíma hafi Aníta verið að sækjast eftir því að koma aftur til starfa á almennri deild eftir veikindaleyfi, en var neitað um slíka tilfærslu. Mannauðsstjóri bar vitni í málinu og sagði að viðbrögð Anítu við símtalinu hafi vakið furðu hennar. Aníta hefði staðið fast á ummælum sínum og viðhaft frekari neikvæð ummæli um Þórhildi Gyðu. Síðan hefði hún bætt við að ef hún „ætti 5.000-kall fyrir hvert skipti sem einhver vælandi kerling niðri í bæ óskaði eftir að hún handtæki einhvern mann sem hún segði hafa byrlað sér, þá væri hún rík“. Aníta hafi setið fast við sinn keip og ekki áttað sig á hvaða áhrif ummælin hefðu. Því hafi ekki verið annað hægt en að áminna hana.

Aníta sagði við rekstur málsins að ljóst væri að mikið af þeim kvörtunum sem embættinu bárust vegna ummæla hennar kæmu frá samfélagsmiðlum, sum frá gerviaðgöngum, og væri ljóst af nöfnum kvartenda að þeir tilheyrðu hópi sem hefði greinilega haft samantekin ráð um að senda inn kvartanir og tengdust meðal annars Öfgum. En Aníta sagði Öfga þekktar fyrir harða og oft á tíðum ómálefnalega gagnrýni á hendur lögreglu vegna kynferðisbrotamála.

Langvarandi skaðleg áhrif sem höfðu áhrif á alla innan lögreglunnar

Um áminninguna sagði mannauðsstjóri að bregðast hafi þurft við ummælum Anítu sökum alvarleika þeirra og þeirrar gagnrýni sem embættið fékk yfir sig í kjölfarið. Segir í dómi:

„ummælin hefðu valdið óróa, bæði samfélaginu og innanhúss. Til dæmis hefði þingmaður lýst opinberlega yfir vonbrigðum með viðhorf í lögreglunni, en auk þess hefðu starfsmenn komið á fund mannauðsstjóra og lýst yfir áhyggjum af því hvaða áhrif málið hefði á traust til lögreglunnar. Þá hefðu stjórnendur upplýst hana um að þau hefðu átt sams konar samtöl við starfsmenn. Vísaði vitnið þá til þess að það væri yfirlýst stefna embættisins að efla traust til lögreglunnar, enda væri traust forsenda þess að almenningur leitaði aðstoðar lögreglu. Vitnið taldi skaðlegu áhrifin hafa verið langvarandi, sem væri ljóst af opinberum samskiptum lögreglu við borgarana. Í svokölluðu Twitter-maraþoni sem lögreglan hefði staðið fyrir nokkru síðar hefði t.d. ítrekað verið spurt um viðbrögð embættisins við máli stefnanda.“

Hefðu ummæli Anítu með einum eða öðrum hætti haft áhrif á alla innan lögreglunnar.

Þrátt fyrir flutning í starfi hefðu Anítu áfram boðist sömu kjör, starfsheiti og starfsstig. Eins hefði hún áfram geta fengið yfirvinnutíma. Hún væri með sama yfirmann og tilheyrði sömu starfseiningu. Hún hefði í raun bara verið flutt á skrifstofu hinum megin við götuna en notaði eftir sem áður sama mötuneyti. Því væri ekki um mikla tilfærslu að ræða. Áðurnefnt fánamál hefði engin áhrif haft á áminninguna eða flutningin þar sem því máli hafi verið lokið með almennum tölvupósti á alla starfsmenn, enda fleiri lögreglumenn sem höfðu skreytt búninga sína með sambærilegum fánum.

Niðurlægjandi áminning

Aníta taldi sig ekki hafa brotið gegn trúnaðar- og hollustuskyldu gagnvart embættinu með ummælum sínum og þau  hafi ekki verið til þess fallin að rýra traust almennings til lögreglunnar. Eins hafi ummælin verið hennar innlegg  í opinbera umræðu, þau hefðu fallið utan vinnutíma og sem hennar persónulega tjáning en ekki í samhengi við störf hennar. Slík tjáning væri vernduð af stjórnarskrá. Hafi bæði Þórhildur og Öfgar kallað í rauninni ummælin yfir sig með því að ganga hart fram í opinberri gagnrýni á meðal annars lögreglu og með stuðandi fullyrðingum um meinta gerendur í kynferðisbrotamálum. Ítrekaði Aníta þá afstöðu sína að ekki sé skilyrðislaust hægt að trúa þeim sem stíga fram og kalla sig þolendur.

Hafi Anítu í raun verið refsað tvisvar fyrir ummælin. Annars vegar með áminningu og hins vegar með flutningi í starfi. Hafi þetta verið niðurlægjandi í hennar garð og til þess fallið að hafa neikvæð áhrif á framtíðarhorfur hennar í starfi.

Lögreglustjóri vísaði til þess að ummælin um Þórhildi hafi varðað mál Arons Einars, sem þá var til meðferðar hjá embættinu. Aníta hafi starfað hjá almennri útkallsdeild, sem starfsmenn þeirrar deildar koma eftir atvikum á vettvang kynferðisbrota. Ummælin hafi fallið í opinberri umræðu, þrátt fyrir að Aníta hefði sem varðstjóra borið að gæta varúðar í slíkri umræðu, einkum hvað varðar mál sem til meðferðar eru hjá embættinu.

Uppnefndi forvígsfólk umræðunnar

Dómari fór yfir málið og taldi ljóst að gera þurfi þá kröfu til embættismanna að þeir sýni ekki af sér hegðun sem geti varpað rýrð á störf þeirra eða starfsgrein. Varðandi ummælin um Þórhildi sagði dómari:

„Stefnandi hefur ekki skýrt umrædd ummæli frekar eftir að þau voru látin falla. Að mati dómsins er þó ljóst að þessi ummæli stefnanda voru til þess fallin að gera lítið úr konunni sem fjallað var um í fréttinni og myndin birtist af og einnig óbeint þeirri afstöðu sem konan lét uppi í fréttinni um að hún tryði ekki frásögn kærða í kynferðisbrotamáli sem þá var til meðferðar hjá embætti lögreglustjórans.“

Þarna hafi Aníta gert lítið úr Þórhildi, sem hafi stigið fram sem þolandi, og eins hafi Aníta lýst viðhorfi sínu til stöðu aðila í máli sem embætti hennar hafði til rannsóknar. Hún hafi því brotið gegn starfsskyldum sínum.

Hvað ummæli um Öfga varðar sagði dómarinn:

„Ljóst er að stefnandi gagnrýndi með þessum ummælum sínum að suð um kynlíf væri lagt að jöfnu við alvarlegt kynferðisbrot eins og nauðgun. Þótt gagnrýni stefnanda væri að þessu leyti efnislega málefnaleg gekk stefnandi hins vegar mun lengra með því að uppnefna forvígisfólk umræðunnar „psychoherinn“ og lýsa með því efasemdum um andlegt heilbrigði þess, ásamt því að birta mynd af þremur konum í færslu sinni. Það hvernig stefnandi setti fram gagnrýni sína að þessu leyti var því ekki í samræmi við starfsskyldur hennar“

Aníta hafi svo ekki bakkað með afstöðu sína í samtali við mannauðsstjóra heldur sett fram frekari neikvæð ummæli um þolendur kynferðisbrota.

„Í kjölfar þess að stjórnendur gerðu athugasemdir við ummæli hennar, haft uppi frekari neikvæð ummæli um einstaklinga sem leituðu til hennar vegna gruns um að þeim hefði verið byrluð ólyfjan á skemmtistöðum. Verður því að fallast á það mat stefnda lögreglustjórans að einsýnt hafi verið að vægari úrræði en áminning myndu ekki duga til að taka á þeirri háttsemi sem stefnandi sýndi.“

Dómari taldi réttlætanlegt í ljósi þessa að Aníta hefði verið flutt í starfi svo ekki væri hætta á að hún tæki við tilkynningum um kynferðisbrot. Markmiðið með flutningnum hafi verið að auka traust til lögreglu og hafi þessi flutningur verið til þess fallinn að ná því markmiði. Því var lögreglustjóri og ríkið sýknað í málinu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Dóru Björt brugðið yfir vöruhúsinu í Álfabakka – Viðstödd borgarráðsfund þar sem byggingarmagnið var samþykkt

Dóru Björt brugðið yfir vöruhúsinu í Álfabakka – Viðstödd borgarráðsfund þar sem byggingarmagnið var samþykkt
Fréttir
Í gær

Valkyrjurnar halda ótrauðar áfram

Valkyrjurnar halda ótrauðar áfram
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sakar Viðskiptaráð um þráhyggju og áróður – „Því er eðlilegt að spyrja hvað vaki fyrir Viðskiptaráði með jafn villandi framsetningu?“

Sakar Viðskiptaráð um þráhyggju og áróður – „Því er eðlilegt að spyrja hvað vaki fyrir Viðskiptaráði með jafn villandi framsetningu?“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ari Hermóður sakfelldur fyrir fjárdrátt

Ari Hermóður sakfelldur fyrir fjárdrátt
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Æsispennandi kapphlaup um að verða „Trump-hvíslari“ – Hver er með forystuna?

Æsispennandi kapphlaup um að verða „Trump-hvíslari“ – Hver er með forystuna?
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Zelenskyy segir að 43.000 úkraínskir hermenn hafi fallið í stríðinu

Zelenskyy segir að 43.000 úkraínskir hermenn hafi fallið í stríðinu
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Rannsókn mun fara fram á andláti Lúðvíks

Rannsókn mun fara fram á andláti Lúðvíks
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Lögreglan á Vestfjörðum lýsir eftir Áslaugu

Lögreglan á Vestfjörðum lýsir eftir Áslaugu