Sverrir Þór Gunnarsson, Sveddi tönn, hefur verið ákærður af ríkissaksóknara í Brasilíu fyrir stórfelld fíkniefnalagabrot og skipulagða glæpastarfsemi.
Vísir greinir frá og hefur gögn dómsyfirvalda í Brasilíu undir höndum.
Fyrirtaka var í málinu 3. júlí fyrir dómstól í Rio de Janeiro þar sem sönnunargögn voru lögð fram. Samkvæmt téðum gögnum var máli Sverris Þórs vísað áfram til ríkissaksóknara 9.maí, dómari skipaði réttarhöld 14.júní. Þeim réttarhöldum var síðan frestað til 3.júlí.
DV tók saman umfjöllun um Sverri Þór og langan afbrotaferil hans hérlendis og erlendis.
Sjá einnig: Brasilíufanginn með 10 í bókfærslu sem átti meint hóruhús í Ármúla – Hver er Sveddi tönn ?
Sverrir Þór var handtekinn í Ríó de Janeiro 12. apríl í umfangsmiklum aðgerðum brasilísku lögreglunnar í samvinnu við íslensku lögregluna og fleiri. Vísir vísar í tilkynningu brasilísku alríkislögreglunnar þar sem fram kom fram að aðgerðirnar sneru að glæpasamtökum sem hafa sérhæft sig í peningaþvætti og fíkniefnaviðskiptum. Er Sverrir Þór grunaður um að vera einn af leiðtogum samtakanna, sem grunuð eru um víðtæka brotastarfsemi í Brasilíu með útibú í fjölmörgum borgum.