Síðastliðinn laugardag fór fram fegurðarsamkeppnin Ungfrú Holland. Sú sem hlaut kórónuna er 22 ára gömul og heitir Rikkie Valerie Kollé en hún er trans kona. Hún mun taka þátt í keppninni Ungfrú Alheimur fyrir Hollands hönd og verður aðeins önnur trans konan til að taka þátt í keppninni.
NBC greinir frá því að Kollé hafi fagnað sigrinum á Instagram síðu sinni og skrifað þar að hún væri vissulega trans kona og vildi segja sína sögu en lagði einnig áherslu á að hún væri Rikkie og það væri það sem skipti máli fyrir hana. Hún segist hafa náð þessum árangri á eigin verðleikum og notið hverrar mínútu.
Hún segist vilja vera sú fyrirmynd sem hana skorti í æsku, fyrirmynd og fulltrúi fyrir bæði ungar konur og hinsegin fólk. Kollé vonar að hún geti veitt fólki innblástur til að umvefja sína eigin sjálfsmynd jafnvel þótt að viðkomandi hafi verið hafnað af fjölskyldum sínum. Hún segist vita vel hvernig er að finnast maður vera aleinn í heiminum en hún hafi aldrei verið sterkari.
Kollé starfar sem leikkona og fyrirsæta og er frá borginn Breda í suðurhluta Hollands.
Dómarar keppninnar sögðu um Kollé að hún hefði bókstaflega ljómað í gegnum alla keppnina og verið sá keppandi sem hafi tekið mestum framförum. Hennar saga væri sterk og markmið hennar væru skýr.
Kollé mun halda til keppni í Ungfrú Alheimur sem fram fer í El Salvador síðar á þessu ári. Trans konum var fyrst heimiluð þátttaka í þeirri keppni árið 2012 en sú fyrsta tók þátt árið 2018. Algengara er orðið að trans konur taki þátt í fegurðarsamkeppnum á landsvísu, undanförum Ungfrú Alheims. Til að mynda mun trans konan Daniela Arroyo González keppa um titilinn Ungfrú Puerto Rico í næsta mánuði.