Atletico Madrid hóf undirbúningstímabil sitt í gær og vakti athygli að Joao Felix æfði með unglingaliðinu hluta úr degi.
Felix er nýkominn aftur til Atletico frá Chelsea, þar sem hann var á láni seinni hluta síðustu leiktíðar.
Chelsea hafði ekki áhuga á að fá hann endanlega og þá vill Atletico selja Portúgalann.
Paris Saint-Germain er talinn líklegasti áfangastaður Felix.
Það sem ýtir undir að Felix sé á förum er að hann æfði með unglingaliðinu hluta úr fyrsta degi Atletico Madrid í gær.
Á sama tíma fór Diego Simeone í taktískar æfingar með aðalliðinu.
Renan Lodi, sem var á láni hjá Nottingham Forest í fyrra, var einnig með Felix með unglingaliðinu.
Talið er að Atletico vilji 87 milljónir punda fyrir Felix sem kostaði félagið 114 milljónir er hann kom frá Benfica 2019.