Lögreglustjórinn á Suðurnesjum í samráði við vísindamenn og sóttvarnalækni, hafa ákveðið að loka fyrir aðgang að gosstöðvunum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá almannavörnum. „Næstu klukkustundir er líklegt að mikil gasmengun verði og byggist upp sökum hægviðris. Fólk sem þegar hefur lagt af stað, eða er komið að eldstöðvunum er beðið að snúa þegar við,“ segir í tilkynningunni. Unnið sé að því að auðvelda aðgengi að eldstöðvunum þegar dregið hefur úr gasmengun.
Greint var frá því í kvöldfréttum RÚV kl.19 að töluverður fjöldi fólks hafi ætlað að ganga upp að gosstöðvunum þrátt fyrir viðvaranir almannavarna. Um dágóðan spöl er að ræða eða 9 kílómetra. Þeir sem eru á leiðinni eru beðnir um að snúa við hið snarasta.
Gosið er kraftmeira en gosin þar á undan en gossprungan er hátt í kílómetri að lengd. Hraunið rennur nú til suðurs þar sem talið er ólíklegt að það muni ógna mannvirkjum. Telja vísindamenn að hraunið nái síðar í Meradali þar sem gaus í um átján daga í fyrra.