Það lítur út fyrir að Alex Freyr Elísson sé á förum frá Breiðabliki en hann er ósáttur við hlutverk sitt.
433.is sagði frá því fyrir helgi að Alex væri ósáttur við spiltíma sinn hjá Breiðabliki á tímabilinu og hyggðist leita annað á láni í komandi félagaskiptaglugga. Nokkur félög hafa sýnt honum áhuga.
Í nýjasta þætti Þungavigtarinnar segir Kristján Óli Sigurðsson frá því að Fylkir verði næsti áfangastaður kappans.
Alex gekk í raðir Íslandsmeistara Blika frá Fram í vetur en hefur ekki tekist að brjóta sér leið inn í byrjunarliðið. Hann hefur aðeins komið við sögu í fjórum leikjum í Bestu deildinni það sem af er sumri. Þá er hann oft ekki í leikmannahópi Blika.
Alex er samningsbundinn Breiðabliki tvö tímabil til viðbótar.
Alex var lykilmaður hjá Fram sem var nýliði í Bestu deild karla í fyrra.