Neytendastofa gætir upp á ýmsa hagsmuni neytenda hér á landi, svo sem að við sem neytendur getum áttað okkur á því hvað vörur og þjónusta, og að slíkt komi okkur ekki á óvart við afgreiðslukassann. Nú hafa tvær verslanir verið sektaðar eftir að reglulegt eftirlit Neytendastofu sýndi fram á að verðmerkingum hafi verið ábótavant, og ekki hafi verið brugðist við athugasemdum Neytendastofu með fullnægjandi hætti. Þessar verslanir eru annars vegar barnavöruverslunin Ólavía og Óliver í Glæsibæ og hins vegar bóka- og ritfangaverslunin Penninn í Mjódd.
Hvað verslunina Ólavíu og Oliver varðar þá kannaði Neytendastofa verðmerkingar þar í maí síðastliðnum. Fyrirtækjum sem selja vörur eða þjónustu ber ögum samkvæmt að verðmerkja vörur sínar og þjónustu og sýna þær merkingar með áberandi hætti á sölustaðnum. Eins ber að gæta að reglum sem gilda um verðmerkingar og einingaverð. Starfsmaður Neytendastofu taldi að þessu væri ábótavant hjá Ólavíu og Oliver, þá sérstaklega hvað varðaði Bieco nagdót, Baby Bear leikgrind, Hvolpasveita liti og Polo kerrur. Eins voru gerðar athugasemdir við ástand verðmerkingar á Basson kerrum, barnastólum og göngugrindum.
Starfsmaður verslunarinnar kvittaði fyrir skoðun Neytendastofu og fyrir þeim athugasemdum sem gerðar voru við ástand verðmerkinga. Versluninni barst svo bréf um miðjan maí þar sem farið var yfir niðurstöðu skoðana og farið yfir hvaða lög og reglur gildi um verðmerkingar. Þar var skorað á verslunina að koma verðmerkingum í betra horf, því annars mætti hún búast við sekt.
Neytendastofa fór svo aftur í verslunina í júní, en aftur þótti verðmerkingum ábótavant. Því tilkynnti Neytendastofa versluninni að þau hefðu tvær vikur til að koma fram skýringum eða athugasemdum áður en ákvörðun yrði tekin um sekt. Engin svör bárust frá versluninni, sem þarf nú að greiða 50 þúsund króna sekt fyrir að hafa brotið gegn lögum um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu sem og ákvæði reglna um verðmerkingar og einingaverð við sölu á vöru.
Neytendastofa kannaði einnig ástand verðmerkinga í verslun Pennans í Mjóddinni. Sú skoðun leiddi í ljós að verðmerkingum væri ábótavant bæði í versluninni sjálfri og í sýningarglugga. Sérstakar athugasemdir voru gerðar við verðmerkingar á prent pappír, ljósmynda albúnum, ýmsum bókum útstilltum á gólfi og skærum. Ferðatöskur útstilltar í sýningargluggum höfðu einnig óskýrar verðmerkingar og svo voru gerðar sérstakar athugasemdir við verðmerkingar á gjafapappír, bæði í lausu og í rúllum.
Sama verklagi var fylgt og rakið er hér að ofan í tilfelli Ólavíu og Olivers. Penninn kvittaði fyrir skoðun Neytendastofu, fékk í kjölfarið bréf þar sem tilkynnt var um möguleika á sektarákvörðun ef ekki yrði brugðist við athugasemdum, og aftur fylgdi Neytendastofa málinu eftir með nýrri skoðun í júní.
Seinni skoðun leiddi aftur í ljós annmarka á verðmerkingum og var Pennanum gefinn tveggja vikna frestur til að koma á framfæri skýringum eða athugasemdum við fyrirhugaða sektarákvörðun. Penninn svaraði og benti á að þær athugasemdir sem gerðar höfðu verið í seinni skoðun hefðu varðað vörur sem hefðu verið óverðmerktar fyrir mistök annars vegar og hins vegar vörur sem hafi verið verðmerktar, þó svo Penninn viðurkenndi að merkingin hefði mátt vera skýrari. Neytendastofa sagðist hafa þær skýringar í huga við ákvörðun sína sem varð á endanum sú sama og í fyrra tilvikinu – 50 þúsund króna sekt.