Karlmaður var handtekinn á Þorláksmessu árið 2020 eftir að hann hafði hringt 237 sinnum í Neyðarlínuna án þess að um neyðartilvik væri að ræða. Lögreglan ákvað í kjölfarið að hætta rannsókn í málinu og ákvað maðurinn þá að krefjast miskabóta vegna tilefnislausra aðgerða lögreglu gegn honum.
Dómur féll í Héraðsdómi Reykjavíkur í lok júní á þessu ári, en í honum segir að lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu hafi á Þorláksmessu árið 2020 borist tilkynning frá Fjarskiptamiðstöð ríkislögreglustjóra út af ónæði frá manninum sem hafði þá hringt í Neyðarlínuna 180 sinnum á einum sólarhring. Ekki var talið að um neyðartilvik væri að ræða eða nokkuð sem ætti sérstakt erindi við viðbragðsaðila. Tæpum klukkutíma síðar fékk lögregla tilkynningu um að símtöl mannsins væru nú orðin 237. Lögreglan hringdi þá í hann til að reyna að stöðva háttsemi hans en ekki reyndist unnt að eiga við hann eðlilegar samræður né útskýra fyrir honum að hann væri að valda truflun á starfsemi Neyðarlínunnar. Fór lögregla þá á dvalarstað mannsins, handtók hann og flutti á lögreglustöð þar sem hann var vistaður í fangaklefa þar til hann var yfirheyrður. Maðurinn er erlendur ríkisborgari og því þurfti að boða túlk til skýrslutökunnar sem tók nokkurn tíma. Maðurinn neitaði þó að tjá sig um erindi sitt til Neyðarlínunnar og var svo sleppt úr haldi eftir skýrslutöku. Var hann handtekinn rétt eftir miðnætti en sleppt rétt fyrir klukkan tvö á aðfangadag.
Var manninum svo tilkynnt í maí 2021 að rannsókn málsins hefði verið hætt þar sem ekki væri talinn grundvöllur til að halda henni áfram. Maðurinn gerði svo kröfu um greiðslu miskabóta vegna aðgerða lögreglu en ríkislögmaður hafnaði þeirri kröfu með vísan til þess að maðurinn hefði sjálfur orðið valdur að aðgerðum lögreglu gegn sér.
Maðurinn byggði á því að hann hefði verið borinn sökum í sakamáli, handtekinn og vistaður í fangaklefa, vegna máls sem síðar var fellt niður. Ætti hann því rétt til óskertra bóta nema hægt væri að sanna að hann bæri sjálfur ábyrgð á lögregluaðgerðum. Taldi maðurinn að hann hefði ekki gert slíkt. Hann hafi ekki brotið gegn fjarskiptalögum né öðrum lögum.
Íslenska ríkið bar því við að maðurinn hafi valdið verulegri truflun á starfsemi Neyðarlínunnar og kosið að upplýsa ekki um erindi sitt. Lögregla hafi gætt að meðalhófi, fyrst reynt að hafa samband við manninn í síma, en það hafi engan árangur borið. Handtaka hafi farið fram til að halda uppi lögum og reglu í þágu almannafriðar og allsherjarreglu og nauðsynlegt hafi verið að koma í veg fyrir áframhaldandi brot mannsins. Grunur hafi leikið á að hann hefði brotið fjarskiptalög og eftir atvikum hegningarlögum sem geti sætt ákæru. Maðurinn hafi valdið handtöku sinni sjálfur og eigi því ekki rétt á bótum.
Dómari taldi að fullt tilefni hafi verið til að handtaka manninn. Maðurinn hefði mátt gera sér grein fyrir því að endurtekin tilefnislaus fjöldi símhringinga í Neyðarlínu gæti orðið tilefni til sérstakra aðgerða gagnvart honum. Hann hafði því fyrirgert bótarétti sínum. Var því íslenska ríkið sýknað.