Völvan Ísvöld frá Stokkseyri er ein af þeim sem er áhyggjufull yfir þeim fyrirætlunum Vegagerðarinnar að sprengja burt stuðlabergshól við lagningu nýs vegar yfirHornafjarðarfljót. Samkvæmt gamalli trú, sem margir aðhyllast enn og Ísvöld þar á meðal, er um að ræða álfakirkju sem getur reynst afdrifaríkt að hrófla við.
Hóllinn kallast Topphóll en RÚV ræddi við Snævarr Guðmundsson, landafræðing, í lok síðustu viku og sagði hann íbúa Hafnar á Hornafirði uggandi. „Ég veit til þess að mörgum Hornfirðingum er mjög órótt um að það eigi að sprengja þennan hól. Því að í þeirra barnsminni var hér um að ræða álfakirkju. Og í örnefnaskrá er Topphóll skráður sem álfakirkja.“
Þeir sem ekki trúa á álfa syrgja sjaldgæft og tignarlegt stuðlabergið sem mun hverfa á braut.
Margir eru á því að hnika hefði átt hólnum um 20 metra eða svo til að bjarga hólnum en af því virðist ekki ætla að verða. Vinnuvélar hafa skafið jarðveg utan af hólnum til þess að undirbúa sprenginguna.
Völvan Ísvöld mætti alla leið frá Stokkseyri í dag til þess að votta álfunum virðingu sína og hún framkvæmdi athöfn við Topphól. Kveikti hún á kertum og setti upp kross líkt og til þess að biðjast fyrirfram afsökunar á yfirgangi mannskepnunnar.