Klámsíðan Pornhub hefur ákveðið að ráðast í róttækar aðgerðir til að mótmæla lagabreytingu sem átti sér stað í Virginíu ríki í Bandaríkjunum. Þar gildir, eins og annars staðar, að fólk þurfi að hafa náð 18 ára aldri áður en því er heimill aðgangur að klámsíðum. Þetta hefur þó sögulega ekki verið virt, enda sá háttur hafður á að klámsíðan hreinlega spyr nýja gesti hvort þeir séu orðnir lögráða og treystir því að þeir svari af hreinskilni.
Sum ríki í Bandaríkjunum ákváðu að þetta hreinlega gengi ekki lengur og þyrfti að beita strangari skilyrðum til að sannreyna aldur netverja sem vilja horfa á klámefni. Til þess að knýja fram þessar breytingar hafa verið sett þar til gerð lög til að torvelda börnum aðgengi að efni sem ekki þykir hæfa aldri þeirra. Tóku slík lög gildi í Virginíu eftir að ríkisstjórinn undirritaði þau í maí.
Pornhub ákvað að mótmæla þessu með því að gera síðu sína óaðgengilega íbúum Virginíu, en síðan hafði áður gert þetta gagnvart Utah þar sem sambærileg lög hafa verið sett. Reyni íbúar að opna Pornhub mætir þeim klámstjarnan Cherie DeVille sem færir þeim þau skilaboð að þeir megi þakka stjórnvöldum fyrir það að komast ekki lengur í klámið sitt.
„Eins og þú kannski veist þá hafa kjörnir fulltrúar í Virginíu krafið okkur um að sannreyna aldur þinn áður en við veitum ykkur aðgang að síðum okkar. Þó að öryggi og löghlýðni sem forgangsatriði í starfsemi okkar, þá er það ekki skilvirkasta leiðin til að vernda notendur okkar með því að krefja þá um persónuskilríki í hvert sinn sem þeir ætla að heimsækja síður sem ætlaðar eru fullorðnum, þetta mun þvert á móti stefna börnum og friðhelgi einkalífs ykkar í hættu.“
Pornhub heldur því fram að lögin séu meingölluð og í þeim megi finna alltof margar glufur. Núverandi kerfið sem síðan styðst við virki þannig að þeir beri kennsl á notendur eftir tækum þeirra og nota þær upplýsingar til að sannreyna aldur. Það fyrirkomulag er að þeirra mati betra.
„Eins og við höfum séð í öðrum ríkum [að krefjast persónuskilríkja] þá auka þessi lög umferð til vefsíðna sem eru með mun færri öryggisráðstafanir í gildi. Mjög fáar síður standast samanburðinn við það traust og öryggisráðstafanir sem við bjóðum upp á. Til að vernda börn og einkalíf notenda, þá þarf að beita lögum sem þessum gegn öllum síðum sem bjóða upp á efni fyrir fullorðna.“