Klukkan 14:50 í dag höfðu frá því í gær mælst yfir 2.200 jarðskjálftar á Reykjanesi. Jarðskjálftahrinan liggur á milli Fagradalsfjalls og Keilis í norðaustur-suðausturstefnu, samkvæmt tilkynningu á vef Veðurstofunnar. Þar segir að skjálftavirkninni svipi til undanfara síðustu tveggja eldgosa á svæðinu og því sé mjög líklegt að hrinan endi með eldgosi á næstu klukkustundum eða dögum.
Í morgun hafa skjálftar á svæðinu mælst á 2-3 km dýpi. Skjálftarnir hafa farið stækkandi eftir því sem liðið hefur á hrinuna og sjö skjálftar hafa mælst yfir 4 í morgun. Í tilkynningunni segir ennfremur:
„Virknin er áþekk fyrri skjálftahrinum sem urðu á svæðinu í febrúar-mars og desember 2021 og í júlí-ágúst 2022. Þær hrinur urðu vegna kvikuinnskots á sömu línu. Tvær hrinanna enduðu með eldgosi (í mars 2021 og ágúst 2022).
Hrinan nú er talin vera vegna nýs kvikuinnskots á milli Fagradalsfjalls og Keilis. Nánar tiltekið svipar yfirstandandandi hrinu til þeirrar sem hófst 30. júlí 2022 þegar innskot varð á sama svæði og endaði með eldgosi fjórum dögum síðar, þann 3. ágúst 2022.“