Stefán Ingi Sigurðarson var á dögunum seldur frá Breiðabliki til Patro Eisden í belgísku B-deildinni. Blikinn og hlaðvarpsstjarnan Kristján Óli Sigurðsson er allt annað en sáttur með hvernig hans menn hafa staðið að málunum.
Stefán var kominn með 13 mörk í öllum keppnum í sumar en kvaddi Blika eftir Evrópuleiki á dögunum. Hann var því ekki með þegar liðið féll úr leik í undanúrslitum Mjólkurbikarsins gegn KA í gær í leik sem fór alla leið í vítaspyrnukeppni.
„Formaðurinn var nú að velta fyrir sér einhverjum myndum sem Belgarnir voru með í bakgrunni þegar Stefán Ingi var kynntur.“ Svona hóst eldræða Kristjáns í Þungavigtinni. Vísar hann þar til eftirfarandi færslu Flosa Eiríkssonar, formanns knattspyrnudeildar Breiðabliks:
Væri gaman að vita meira um sögu þessa félags – nota veggmynd af námu- eða stáliðnaðarmönnum sem bakgrunn við að kynna nýjan leikmann! https://t.co/gzmYV20D9j
— Flosi Eiríksson (@FEiriksson) July 3, 2023
Kristján hélt svo áfram. „Af hverju í andskotanum eru Íslandsmeistararnir að selja leikmann þegar 10 mínútur eru í bikarúrslit. Hann ætti frekar að svara þeirri spurningu.
Þetta er bara kjaftæði og Breiðablik er enn og aftur að sýna það að þeir eru ekki komnir á meðal stærstu liðanna. Ég tek til baka að þeir séu stærsta lið landsins. Þetta er aumingjaskapur og algjör meðalmennska. Þú setur hnefann í borðið og ferð ekki með þennan strák út fyrr en við förum í bikarúrslit eða töpum í undanúrslitum.“