Arsenal og West Ham hafa loks náð endanlega saman um kaupin á Declan Rice. Helstu miðlar sögðu frá þessu í gærkvöldi.
Félögin tvö náðu saman í síðustu viku um að Arsenal myndi kaupa Rice á 100 milljónir punda með möguleika á 5 milljónum punda til viðbótar. Þá átti hins vegar eftir að semja um hvernig greiðslum skildi háttað.
Nú hefur náðst samkomulag um það og Rice fengið grænt ljós á að klára dæmið með Arsenal og gangast undir læknisskoðun.
Hún mun fara fram í þessari viku og í kjölfarið verður leikmaðurinn kynntur til leiks sem nýjasta stjarna Arsenal.
Rice verður með kaupum Arsenal dýrasti enski leikmaður sögunnar. Hann tekur þar með fram úr Jack Grealish sem var keyptur til Manchester City frá Aston Villa á 100 milljónir punda sumarið 2021.