Kona á sjötugsaldri lét lífið eftir að hafa orðið fyrir árás krókódíls í Suður-Karólínu-fylki í Bandaríkjunum í gær. Konan, sem var 69 ára gömul, fór út í göngutúr með hundinn sinn nærri golfvelli við Hilton Head Island-hótelið í Beaufort-sýslu þegar skriðdýr réðst skyndilega að henni og veitti henni lífshættulega áverka. Samkvæmt frétt The Mirror sat dýrið vörð um líkama konunnar þegar viðbragðsaðilar komu á vettvang sem gerði björgunarstarfið erfiðara.
Að endingu tókst að fjarlæga krókódílinn og koma konunni til hjálpar en hún var þá meðvitundarlaus og var síðar úrskurðuð látin. Ekki er vitað um afdrif hundsins.
Þetta er önnur mannskæða krókódílaárásinn í Beaufort-sýslu á einu ári. Í ágúst í fyrra varð 88 ára gömul kona fyrir sambærilegri árás sem kostaði hana lífið.
Eins og gefur að skilja hefur atvikið vakið mikið umtal á svæðinu og sýnist sitt hverjum. Flestir eru á þeirri skoðun að ekki beri að álasa krókódílunum og það sé frekar mannfólkið sem sé að taka vanhugsaðar ákvarðanir með því að hætta sér inn á þeirra svæði.
Aðrir eru á þeirri skoðun að krókódílum hafi fjölgað um of og að dýrin séu óvenjulega árásargjörn.