Bandaríska glímustjarnan og fyrirsætan Katie Gannon hefur verið ráðin til að leika athafnakonuna og glamúrfyrirsætuna Ásdísi Rán Gunnarsdóttur í bandarískum þáttum sem fjalla um vinkonurnar Ásdísi Rán og Ruju Ignatova og OneCoin ævintýrið.
Þátturinn verður sýndur á streymisveitunni Tubi, sem er með yfir 64 milljónir virka notendur.
Ruja Ignatova var besta vinkona Ásdísar Ránar og tókst að svíkja út tæpa þúsund milljarða íslenskra króna á heimsvísu áður en hún hvarf sporlaust í október árið 2017.
Ekkert hefur spurst til hennar og er hún á topp tíu lista bandarísku alríkislögreglunnar (FBI) yfir eftirsóttustu glæpamenn heims.
„Það er mjög óraunverulegt að hugsa til þess að það sé einhver að leika mig og okkur vinkonurnar. Það hvarflaði ekki að okkur á þessum tíma en núna þetta er þriðja framleiðslan á sjónvarpsefni um þetta ævintýri, þannig að næst verður það eflaust Hollywood mynd,“ segir Ásdís í samtali við DV.
„Þessi stúlka líkist mér alveg á þessum tíma og hún á örugglega eftir að standa sig vel. Ég veit að það voru áheyrnarprufur í Bandaríkjunum fyrir konur sem líktust mér og hún var valin úr þeim hópi. Það verður gaman að sjá afraksturinn, þetta er yfirleitt byggt á sönnum atburðum en eflaust helmingurinn búinn til líka,“ segir hún kímin.