Vinnufélagarnir á Talksport, Simon Jordan og Gabriel Agbonlahor, tókust harkalega á um nýtt starf Steven Gerrard í gær.
Gerrard hefur verið ráðinn nýr stjóri Al-Ettifaq í Sádi-Arabíu. Liverpool-goðsögnin hefur einnig stýrt Rangers og Aston Villa á stjóraferli sínum en var rekin frá síðarnefnda félaginu á síðustu leiktíð.
„Ef þú vilt verða góður knattspyrnustjóri og telur þig geta það ferðu ekki til Dúbaí eða hvert sem hann er að fara,“ sagði Jordan á Talksport.
„Þessi ákvörðun er ekki tekin út frá knattspyrnusjónarmiðum. Hann mun ekki bæta sig sem þjálfari og mun ekki bæta orðspor sitt í starfinu.“
Agbonlahor svaraði vinnufélaga sínum á Twitter.
„Þú tækir ferju til Sádí ef þér yrðu boðnir svona peningar fyrir að tala í útvarpinu þar. Hættu þessu vinur, gerðu það.“
Jordan svaraði á ný og var ekkert að skafa af því.
„Ég myndi taka ferju hvert sem er ef ég þyrfti ekki að sjá þig aftur, hálfviti.“
Þarna fékk Agbonlahor sig fullsaddan.
„Mér líkar ekki við að það sé talað svona við mig. Við skulum ræða þetta í vinnunni á morgun.“