Söfnun fyrir 20 mánaða gamla stúlku með sjaldgæfa tegund af hvítblæði var komið af stað í Bretlandi eftir að heilbrigðiskerfið neitaði að taka þátt í kostnaði fyrir meðferð stúlkunnar í Bandaríkjunum. Um 180 þúsund pund hafa safnast, en markið er sett í milljón punda.
Hallie sem býr í Coventry í Bretlandi greindist með hvítblæði þegar hún var átta mánaða gömul. Fjölskyldan var þá í sumarfríi á Spáni og var flogið heim með Hallie til að koma henni undir læknishendur. Fjallað er um málið á vef BBC.
Hún er með sjaldgæfa tegund af hvítblæði sem kallast JMML og hefur gengist undir lyfjameðferð, blóðgjöf og tvær stofnfrumuígræðslur. Þegar seinni stofnfrumuígræðslan virkaði ekki var fjölskyldu hennar sagt að besti kosturinn væri að greiða fyrir meðferð í Bandaríkjunum, svokallaða CAR T-frumumeðferð. CAR-T er framkvæmd með þeim hætti að ónæmiskerfisfrumur, sem kallast T frumur, eru fjarlægðar úr blóði sjúklingsins. Þessar frumur eru síðan erfðabreyttar í rannsóknarstofu til að gera þær skilvirkari við að miða á krabbameinsfrumur, fjölga sér og eru síðan gefnar sjúklinginum aftur dropa fyrir dropa.
Meðferðin er dýr eða um milljón pund og hefur breska heilbrigðiskerfið (NHS) neitað að greiða. Á næstu mánuðum mun meðferð líkt og Hallie gefst kostur á vestanhafs hefjast á Great Ormond Street sjúkrahúsinu í Bretlandi, en fjölskylda Hallie vill ekki bíða og vonast til að komast með hana til Bandaríkjanna sem fyrst og það áður en meðferðin hækkar í verði.
Móðursystir hennar, Hannah Dugdale segir að systurdóttir hennar „verðskuldi að fá öll tækifæri á langri og hamingjusömu ævi. Hallie væri ljúf lítil stúlka.“