Karlalið Breiðabliks þurfti að taka þátt í umspili um sæti í forkeppni Meistaradeildar Evrópu í síðustu viku. Þeir eru síðasta íslenska liðið til að taka þátt í umspilinu í bili.
Blikar unnu örugga sigra á Tre Penne frá San Marínó og Buducnost frá Svartfjallalandi í umspilinu í síðustu viku en leikið var á Kópavogsvelli. Þar með tryggðu Íslandsmeistararnir sér sæti í 1. umferð forkeppni Meistaradeildar Evrópu. Þar verður andstæðingurinn Shamrock Rovers frá Írlandi.
„Er þetta ekki pínu vandræðalegt? Að við þurfum að spila við svona lið til að halda áfram í Meistaradeildinni. Þeir kunnu ekki að taka innköst,“ sagði Ríkharð Óskar Guðnason, Rikki G, í nýjasta þætti Þungavigtarinnar.
Við Íslendingar getum þó huggað okkur við það að vegna góðs árangurs í Evrópukeppnum á síðustu leiktíð þurfa Íslandsmeistarar þessa árs ekki að taka þátt í umspilinu næsta sumar.
Arnar Grétarsson, þjálfari Vals, var einnig í setti og benti á að íslensk lið, sem og lið í deildum þar sem leikið er á sumrin, hafi ákveðið forskot.
„Þetta (Buducnost) er alveg alvöru lið, þeir eru bara á undirbúningstímabilinu. Það er það sem menn átta sig stundum ekki á hérna heima, að forskotið sem við höfum til að koma okkur áfram er að við erum á hápunkti tímabilsins á meðan hin eru að byrja.
Þegar þú ferð sunnar í álfuna eru lið kannski að byrja að æfa í júlí og menn bara kallaðir í þessi verkefni með viku fyrirvara í engu standi. Þetta er kosturinn. Nú eru liðin hér heima, eins og Víkingur og Breiðablik, orðin mun betri og þá lenda þessi lið bara í veseni,“ sagði Arnar í Þungavigtinni.