Maðurinn sem opnaði fyrstu verslunina í Kanada sem seldi heróín, kókaín, spítt og alsælu fyrir opnum tjöldum er látinn, en banamein hans mun hafa verið of stór skammtur af fíkniefnum. Frá þessu greinir Vice.
Jerry Martin lést á föstudaginn, aðeins fáeinum dögum eftir að hann var fluttur á sjúkrahús vegna gruns um ofskömmtun af verkjalyfinu fentanlýn. Hann var 51 ára að aldri. Læknum tókst að bjarga lífi hans, en hann komst þó ekki aftur til meðvitundar og var haldið lifandi í öndunarvél. Fjölskyldan hans tók svo þá erfiðu ákvörðun að slökkva á tækjunum sem héldu honum á lífi. Hann hafði áður stigið fram hjá Vice og opnað sig um fíknisjúkdóm sinn og heimilisleysi, sem hann glímdi við þegar hann var ungur að árum. Hann var þeirrar trúar að notendur fíkniefna væru flestir að glíma við afleiðingar áfalla og hefðu gripið á það ráð að neyta fíkniefna til að meðhöndla andleg mein sín. Því þyrftu þessir aðilar ekki afskipti lögreglu, fangageymslur eða slíkt heldur örugg rými til að geta neytt fíkniefna og aðgengi að öruggum efnum.
Kona Jerry, Krista Homas, segir í samtali við Vice að maður hennar hafi glímt við sína eigin djöfla. Hann hafi gengið í gegnum áföll sjálfur og því miður hafi hann fallið. Hún segir óljóst hvort hann hafi ætlað að nota fentalýnið eða ekki, en almennt hafi hann ekki neytt ópíóíða.
Það var í maí sem Jerry opnaði fíkniefnaverslunina, The Drug Store, þar sem hann seldi vímuefni sem höfðu gengist undir prófanir til að tryggja að þau innihéldu ekki fentanýl eða aðra skaðvalda. Hann var handtekinn á innan við sólarhring eftir að verslunina opnaði.
„Ég er að láta þau hafa ávanabindandi vímugjafa, en ég er að afhenda þeim öruggari vímugjafa heldur en fólk getur fengið á götum úti, þar sem efnin gætu innihaldið fentanýl eða önnur efni,“ sagði Jerry í samtali við Vice í maí.
Lögreglan í Vancouver í Kanda, þar sem Jerry opnaði verslun sína, sögðust styðja skaðaminnkandi aðgerðir, en fíkniefnasala yrði þó áfram tilefni lögregluaðgerða. Lagði lögregla hald á fíkniefnin í versluninni sem og bifreiðina sem verslunin var rekin úr.
Krista segir að Jerry hafi fyrir alla muni viljað hjálpa fólki. Hann hafi vitað hvaða áhættu hann væri að taka þegar hann opnaði búðina og þó tilraun hans hafi ekki gengið upp hafi hann vonast til að verða brautryðjandi fyrir aðra sem gætu hafið slíka sölu með farsælli hætti.
Hafði Jerry sagt við Vice að fólk væri að deyja. Það væri staðreynd sem yfirvöld væru meðvituð um en ekkert væri þó gert til að bæta öryggi þeirra sem nota fíkniefni.