Í vikunni bárust fréttir af hræðilegu slysi um borð í farþegaferju í Eystrasaltinu þar sem sjö ára drengur féll útbyrðis í ískalt hafið. Móðir drengsins, sem var 36 ára gömul, átti að hafa kastað sér á eftir syni sínum og urðu afleiðingarnar þær að mæðginin, sem voru frá Póllandi, létust bæði.
Atvikið hræðilega átti sér stað síðastliðinn föstudag um borð í Stena Spirit-ferjunni sem siglir á milli Gdynia í Póllandi til Karlskrona í Svíþjóð. Fjölluðu helstu fjölmiðlar heims um hetjudáð móðurinnar sem árangurslaust freistaði þess að bjarga syni sínum.
Afar umfangsmiklar björgunaraðgerðir voru settar í gang meðal annars með hjálp flugvéla frá NATO. Að endingu tókst að finna mæðginin en voru þau úrskurðuð látin skömmu síðar.
Nú berast hins vegar þau tíðindi að málið sé rannsakað sem morð en að sjónarvottur hafi séð móðurina, sem hét Pauline, grípa son sinn og stökkva útbyrðis. Aðrir sjónarvottar hafa sagt að Pauline hafi litið þreytulega út og virst líða illa.
Sænska lögreglan sendi frá sér yfirlýsingu þar sem fram kom að frásögn sjónarvotta og ýmsar aðrar vísbendingar, á borð við upptökur úr öryggismyndavélum, styddu við þá ákvörðun að málið sé rannsakað sem morð. Hins vegar ítrekaði lögreglan að enginn væri grunaður um að aðild að málinu og ekki stæði til að leggja fram neinar kærur.