Miklar óeirðir hafa verið í París undanfarna daga í kjölfar þess að lögreglumenn skutu 17 ára ungling til bana er hann ók í burtu af vettvangi eftir að hafa verið stöðvaður í umferðareftirliti.
Í gærkvöld tóku óeirðirnar á sig nýja mynd er óeirðaseggir réðust inn á heimili borgarstjórans Vincent Jeanbrun, kveiktu í húsinu og skutu flugeldum að eiginkonu hans og tveimur ungum börnum. Borgarstjórinn var ekki heima er árásin var gerð. Kona hans fótbrotnaði í atganginum og annað barnið slasaðist einnig.
Árásarmennirnir óku bíl í gegnum öryggishlið að heimili borgarstjórans og kveiktu síðan í bílnum á lóðinni. Þaðan barst eldurinn í húsið. Er eiginkona reyndi að flýja með börnin af vettvangi skutu árásarmennirnir flugeldum á þau. Börnin eru 5 og 7 ára.
„Hér hefur verið farið yfir línu,“ segir borgarstjórinn. Málið er rannsakað sem morðtilraun en ekki hefur tekist að hafa finna ódæðismennina.
Óeirðalögreglan í París handtók yfir 700 manns í óeirðum í gærkvöld. Um 45 þúsund lögreglumenn voru að störfum en borgin logaði í mótmælum og óeirðum. Borgarstjórinn hefur hvatt ríkisstjórn Frakklands til að lýsa yfir neyðarástandi.
Heimild: BBC