Þriðjudaginn 27. júní var maður á fertugsaldri sakfellur í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir ýmis afbrot, þau alvarlegustu voru vopnuð rán.
Í janúar á þessu ári fór maðurinn inn í lyfjaversun í Reykjavík og veittist þar með hótunum að starfsmönnum. Heimtaði hann Oxycontin lyf og lýsti því yfir að hann hyggðist sækja vopn og ræna verslunina. Í kjölfarið yfirgaf maðurinn verslunina en sneri skömmu síðar þangað aftur vopnaður hnífi og krafði starfsmennina um Oxycontin lyf. Þeir köstuðu lyfjum til hans yfir afgreiðsluborðið en öryggisvörður stöðvaði manninn á leiðinni út og hélt honum þar til lögregla kom á vettvang.
Maðurinn var einnig sakfelldur fyrir ýmis þjófnaðarbrot en einnig vopnað rán í verslun þann 26. apríl síðastliðinn. Þá ógnaði hann starfsfólki í verslun með hnífi og skipaði þeim að afhenda sér sígarettur.
Maðurinn var einnig sakfelldur fyrir vopnalagabrot, aðallega fyrir að hafa undir höndum hnífa og garðyrkjuklippur. Maðurinn játaði brot sín skýlaust fyrir dómi og var dæmdur í átta mánaða fangelsi. Frá því dregst gæsluvarðhald mannsins en hann hefur verið í gæsluvarðhaldi frá 7. maí.