Það var ekkert grín að vinna með Sir Alex Ferguson sem er sigursælasti stjóri í sögu Manchester United.
Frá þessu greinir Robin van Persie sem vann titilinn á Old Trafford með einmitt Ferguson árið 2013.
Van Persie tjáir sig um eitt afar áhugavert atvik sem átti sér stað eftir tap gegn grönnunum í Manchester City á því tímabili.
Eftir tap gegn Man City ákváðu tveir leikmenn Man Utd að skella sér á djammið, eitthvað sem fór ekki framhjá Ferguson.
,,Á fyrsta tímabilinu mínu hjá Mancheter United vorum við með 15 stiga forystu. Við tókum á móti Manchester City og vonuðumst til að tryggja titilinn,“ sagði Van Persie.
,,Við töpuðum leiknum en vorum enn með 12 stiga forskot. Flestir stjórar hefðu ekki búið til neitt drama úr því.“
,,Stjórinn varð hins vegar bálreiður og staðan hitnaði snögglega þar sem tveir í liðinu höfðu skellt sér á djammið eftir tapið.“
,,Daginn eftir þá hengdi Sir Alex myndir af þessum tveimur leikmönnum á næturklúbbi að skemmta sér. Hann sagði við okkur að ef við myndum ekki vinna titilinn þá væri það útaf þessum tveimur hálfvitum sem ákváðu að fara út á lífið.“
,,Ég veit nöfnin þeirra en get ekki opinberað þau. Stjórinn hraunaði yfir þá, það var magnað að sjá.“