Landsvirkjun hefur flutt höfuðstöðvar sínar tímabundið að Katrínartúni 2 í Reykjavík.
Í fyrrahaust fannst mygla í húsnæði Landsvirkjunar að Háaleitisbraut 68. Við frekari rannsóknir kom í ljós að umfangið var töluvert og því hefur starfsfólk Landsvirkjunar verið dreift um skrifstofuhúsnæði í borginni undanfarna mánuði og verður í sumum tilfellum þar áfram fram á komandi vetur.
Sjá einnig: Mygla í höfuðstöðvum Landsvirkjunar – Loka heilli hæð
Húsnæðinu að Háaleitisbraut 68 verður lokað frá og með 1. júlí. Móttaka gesta og öll önnur starfsemi Landsvirkjunar á höfuðborgarsvæðinu mun að endingu sameinast í Katrínartúni næstkomandi vetur, en fyrsti hópurinn er þegar fluttur yfir.
Í fréttatilkynningu kemur fram að starfsfólk Landsvirkjunar kveður Háaleitisbrautina með söknuði að sinni, en þar hefur fyrirtækið átt höfuðstöðvar sínar í nærri hálfa öld. Til skoðunar er annað hvort að gera endurbætur á húsnæðinu eða að flytja starfsemina á höfuðborgarsvæðinu í nýtt húsnæði.
„Það er mikils virði að tímabundin lausn hafi fundist á húsnæðismálum Landsvirkjunar. En nú þarf einfaldlega að meta hvort borgi sig að gera endurbætur á gamla húsnæðinu eða hvort finna þurfi nýtt framtíðarhúsnæði fyrir fyrirtækið,“ segir Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, en hann flytur nú út úr skrifstofu sinni á 8. hæð á Háaleitisbraut, sem hann hefur haft í fjórtán ár.
Fylgir sögunni að í takt við nútímalegri stjórnarhætti mun Hörður ekki fá sérstaka skrifstofu á nýjum stað.