Björn Ingi Hrafnsson fer yfir Íslandsbankamálið í pistli á vefsíðu sinni Viljanum og segir að nýráðinn bankastjóri og stjórn bankans verði fokin innan mjög skamms tíma. Björn Ingi segir að dómgreindarleysi stjórnenda bankans veki undrun.
„Það hefur eiginlega verið sláandi að fylgjast með framgöngu forystufólks Íslandsbanka þegar kemur að almannatengslum og framkomu í fjölmiðlum síðustu daga eftir að fregnir bárust af svokallaðri sátt milli bankans og Fjármálaeftirlits Seðlabankans.
Tilkynning bankans til Kauphallarinnar sl. fimmtudag þar sem upplýst var um sáttina var eitt, en þar mátti skilja bankastjórann Birnu Einarsdóttur þannig að ekki væri um stórmál að ræða, þrátt fyrir langstærstu sektargreiðslu Íslandssögunnar, bankinn myndi „draga lærdóm“ af þessu, bankastjórnin hefði með þessu fengið traustsyfirlýsingu til að halda áfram og tryggja að verkferlar yrðu lagfærðir. Sjálf væri hún ekki á förum, heldur beinlínis rétta manneskjan til að stýra bankanum áfram.“
Björn Ingi segir að stjórnendur bankans meti stöðuna kolvitlaust og veltir því fyrir sér hvort þetta fólk tali bara hvert við annað. „Formaður bankaráðsins tilkynnti að hluthafafundur, sem stærstu hluthafarnir höfðu krafðist, yrði haldinn í lok júlí, svona eins og ekkert liggi á og allt gangi sinn vanagang. Taldi hann umræðuna „ósanngjarna“ þótt upplýst hafi verið um hvert lögbrotið á fætur öðru og bankinn hafi augljóslega brugðist því trausti sem honum hafði verið sýndur. Sagði hann stjórn bankans hafa „fallist á“ ákvörðun Birnu um að láta af störfum, rétt eins og eitthvað annað hafi verið í boði og aðspurður kvaðst hann ekki eiga von á frekari mannabreytingum innan bankans vegna málsins. Um leið skýrði hann ákvörðun um að ráða staðgengil Birnu og nánasta samstarfsmanna til margra ára eins og ekkert væri sjálfsagðara og lét þess getið að stjórnarmenn myndu flestir eða allir leita eftir endurnýjuðu umboði á hluthafafundinum. Aðspurður um starfslokasamning við bankastjórann, sagði hann að hann yrði birtur einhvern tímann á næsta ári.“
Björn Ingi segir að það hafi ekki verið skynsamlegt af nýráðnum bankastjóra, Jóni Guðna Ómarssyni, að lýsa því yfir um leið og hann var ráðinn að hann væri kominn til að vera. Raunin verði þveröfug. Hann segir stjórnendur bankans skora veruleikatengingu:
„Vandinn er bara sá að þarna vantar alla veruleikatengingu, sem kemur á óvart þegar svo reynslumikið fólk úr viðskiptalífinu á í hlut. Sú spurning vaknar, hvort það er bara að tala hvert við annað í bankanum en engan góðviljaðan utanaðkomandi ráðgjafa sem gæti bent kurteislega á að keisarinn sé ekki í neinum fötum. Málið er auðvitað að stjórn Íslandsbanka nýtur ekki trausts, hvorki í samfélaginu né í stjórnmálunum, og þarf að víkja. Það var því ekki heppilegt að hún færi strax í að ráða nýjan bankastjóra, hvað þá með þeim rökum að sá hefði verið nánasti samstarfsmaður og staðgengill bankastjórans sem varð að hætta. Og það er heldur ekki skynsamlegt hjá nýja bankastjóranum að segjast kominn til að vera, því það er einmitt ekki reyndin. Hann verður orðinn fyrrverandi bankastjóri áður en við vitum af og það þarf þá að gera enn einn starfslokasamninginn.“
Sjá nánar á Viljanum.