Manchester City er sakað um að hafa tekið 30 milljónir punda inn í félagið í gegnum styrktaraðila sem ekki var til. Eru peningarnir taldir hafa komið frá Sheik Mansour eiganda félagsins.
Samkvæmt skýrslu UEFA frá árinu 2020 sem nú hefur lekið út fékk City tvær greiðslur inn í félagið.
Greiðslurnar komu í gegnum fyrirtæki í Abu Dhabi þaðan sem eigendur félagsins eru frá.
Greiðslurnar bárust árið 2012 og 2013. UEFA telur að greiðslurnar hafi verið innborganir frá eiganda félagsins sem er brot á reglum.
City var dæmt fyrir ítrekuð brot af UEFA á reglum um fjármuni og dæmt í tveggja ára bann frá Meistaradeildinni. Alþjóðlegur dómstóll tók málið svo fyrir og var dómurinn mildaður.
City fékk ekkert bann í Meistaradeildinni og þurfti að greiða 10 milljónir punda í sekt en ekki 30 milljónir punda.