Viktor Karl Einarsson, leikmaður Breiðabliks, býst við hörkuleik gegn Buducnost frá Svartfjallalandi á morgun. Liðin mætast í úrslitaleik umspilsins um að komast í forkeppni Meistaradeildar Evrópu.
„Þetta leggst gríðarlega vel í mig. Það er gríðarlega skemmtilegt að spila í Evrópu og gaman að geta verið í nokkrum verkefnum í einu, deild, bikar og Evrópu,“ segir Viktor.
Breiðablik og Buducnost mættust í undankeppni Sambandsdeildarinnar í fyrra og höfðu Blikar betur.
„Ég held að það geti hjálpað okkur í því hvernig við gírum okkur inn í leikinn en kannski ekki endilega hvað varðar taktík og slíkt. Ég á ekki von á að þetta verði eins leikur og í fyrra.
Þeir eru mjög sterkt lið líkamlega svo við þurfum að mæta vel gíraðir í leikinn. Við erum meira fótboltalið og viljum halda boltanum á jörðinni og svona. Þeir vilja örugglega hafa þetta aðeins meiri kraftabolta.“
Viðtalið í heild er í spilaranum.