„Handtaska“ sem er svo agnarsmá að mannsaugað rétt greinir hana seldist á vefuppboði á miðvikudag fyrir 63 þúsund dali eða um 8,6 milljónir króna. Taskan sem er um 0,08 sm á stærð er gerð eftir heimsþekktri hönnun Louis Vuitton og er í flúorgulgrænum lit eins og sjá má.
Það er þó ekki tískumerkið sjálft sem hannaði gripinn heldur listahópur að nafni MSCHF og kallar hann sköpun sína „Smásjár handtösku“, og segir hópurinn töskuna svo smáa að hún komist gegnum nálarauga og sé minni en sjávarsaltkorn.
„Handtaskan“ var búin til með því að nota tveggja ljóseinda fjölliðun, framleiðslutækni sem notuð er til að þrívíddarprenta plasthluta í örskala. Með í kaupunum fylgir smásjá með stafrænum skjá svo hægt sé að skoða „handtöskuna.“
Kynningarmynd sýnir hönnunina í smáatriðum og þar má vel sjá auðkenni Louis Vuittons, stafina „LV“. Virðist „taskan“ byggð á OnTheGo-tösku franska tískurisans, en verðið á henni er 3.100 – 4.300 dalir, eða 424 þúsund – 588 þúsund krónur.
Listahópurinn fékk ekki leyfi tískurisans til að nota nafn hans eða hönnun. MSCHF hópurinn var stofnaður árið 2016 og hefur áður ratað í fréttir fyrir listaverkefni sín, sem oft skjóta föstum skotum á neyslumenningu nútímans, en græða á henni um leið, líkt og uppboðið í gær sýnir vel.
Listahópur sem stuðar
Nike kærði hópinn fyrir „Djöflaskór“ (e. Satan Shoes) þar sem hópurinn hafði stillt upp röð af 666 pörum af breyttum Nike strigaskóm með satanískum táknum og dropum af raunverulegu mannsblóði. Ágreiningurinn var á endanum leystur utan dómstóla. Hópurinn hefur einnig selt falsaðar teikningar Andy Warhol. Árið 2021 reif hópurinn fjórar Birkin handtöskur og gerði úr þeim sandala, sem hópurinn kallaði „Birkinstocks“ og bauð parið til sölu á 76 þúsund dali eða 10,4 milljónir króna,
Stórfurðuleg rauð risagúmmístígvél listahópsins slógu nýlega í gegn eftir að stjörnur á borð við Doja Cat, Iggy Azalea og Janelle Monáe klæddust þeim.