Stefán Ingi Sigurðarson er á leið til Patro Eisden í belgísku B-deildinni frá Breiðabliki. Blikinn og sparkspekingurinn Kristján Óli Sigurðsson telur skiptin ótímabær.
Hinn 22 ára gamli Stefán hefur verið frábær fyrir Blika á leiktíðinni og skorað tíu mörk. Nú eru Íslandsmeistararnir hins vegar að missa afar mikilvægan leikmann.
Patro Eisden er sem fyrr segir í belgísku B-deildinni en er metnaðarfullt félag.
„Það sem ég skil ekki er að Stefán taki þetta skref á þessum tímapunkti. Af hverju hann klárar ekki tímabilið?“ spurði Kristján í Þungavigtinni.
Hann minntist á leið Ísak Snær Þorvalsdssonar sem fór til norska stórliðisins Rosenborg í fyrra.
„Sjáðu hvernig Ísak Snær gerði þetta. Hann fór í Rosenborg eftir frábært tímabil í fyrra. Rosenborg er hundrað sinnum stærri klúbbur en þetta lið í Belgíu.
Ég bara skil þetta ekki. Hann og umboðsmaðurinn hans hljóta að hafa ýtt þessu í gegn.“
Ríkharð Óskar Guðnason tók til máls. „Hversu pirraður heldur þú að Óskar (Hrafn Þorvaldsson þjálfari Breiðabliks) sé?“
„Mjög. Hvað þá ef hann fær ekki að kaupa neina leikmenn í staðinn. Þá hlýtur að sjóða á honum,“ svaraði Kristján.
„Ég get rétt ímyndað mér að hann sé trylltur,“ skaut Mikael Nikulásson svo inn í.